Í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands sem birt var fyrir stuttu kemur fram að engin virkni sé sjáanleg í gossprungunum í nágrenni Grindavíkur en þó sé of snemmt að lýsa yfir goslokum.
Í tilkynningunni kemur fram að síðast sáust hraunspýjur koma upp úr nyrðri sprungunni rétt upp úr kl. 1 í nótt. Áfram dragi úr jarðskjálftavirkni og hafi um 200 smáskjálftar mælst í kvikuganginum frá miðnætti sem bendi til þess að kvika sé þar á hreyfingu og svæðið að jafna sig. Mesta skjálftavirknin sé við Hagafell í nágrenni við fyrri gossprunguna sem opnaðist á sunnudagsmorgun. Of snemmt er að lýsa yfir goslokum.
GPS mælar nemi áfram hreyfingar í og við Grindavík. Kvikugangurinn sem liggi undir Grindavík haldi því áfram að valda þenslu á svæðinu. Hitamyndir úr dróna í nótt hafi sýnt að sprungur sem áður höfðu verið kortlagðar suðvestanvert við Grindavík hafa stækkað talsvert. Áfram sé mikil hætta á svæðinu.