Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, segir að ríkisstjórnin hafi slegið eigið heimsmet í lágkúru með fáránlegu fjárhagslegu ofbeldi gegn öldruðu og veiku fólki í fjáraukalögum rétt fyrir jól.
Guðmundur Ingi segir þetta í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
„Þau áform ríkisstjórnarinnar í skjóli nætur að fella brott persónuafslátt aldraðs fólks á eftirlaunum og öryrkja á lífeyrislaunum sem búa erlendis sýnir svart á hvítu einbeittan fjárhagslegan ofbeldishug hennar til þeirra sem reyna að lifa af í bútasaumuðu almannatryggingakerfi þeirra.“
Guðmundur Ingi segir að stór hluti þeirra sem reyna að lifa af í þessu „ömurlega“ keðjuverkandi skerðingarkerfi ríkisstjórnarinnar búi við fátækt og einnig í sárafátækt í hennar boði.
Sjá einnig: Anna ósátt við ríkið:Hegnt fyrir að vilja frekar dvelja á sólarströnd en í volæði á Íslandi
„Þeim sem hafa gefist upp á því að búa hér á landi í þeirra ömurlega boði í áframhaldandi fátækt og eymd og flutt utan í leit að betra lífi er þegar refsað fyrir það grimmilega í skerðingarkerfinu. Við það að búa erlendis er tekin af öryrkjum og öldruðum t.d. heimilisuppbót, aldursuppbót, framfærsluuppbót og uppbót vegna rekstrar bifreiðar.“
Guðmundur Ingi veltir fyrir sér hvort ekki séu allir jafnir fyrir lögum og hvort það sé ekki brot á stjórnarskrá að mismuna fólki.
„Er hægt að mismuna fólki með því að afnema persónuafsláttinn af greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins en ekki af launa- eða lífeyrissjóðstekjum annarra sem búa erlendis? Hvað með þá sem fá borgað bæði frá TR og lífeyrissjóði og eru með skattkortið og þá persónuafsláttinn hjá lífeyrissjóðnum en ekki TR? Er þá bara tekinn persónuafslátturinn af þeim sem eru með hann hjá TR?“
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hátt skrifaður hjá Guðmundi og segir hann það ekki hafa komið á óvart að þetta „fjárhagslega ofbeldi“ hafi orðið til í fjármálaráðuneytinu í boði flokksins. Spyr hann samt hvar Framsókn og Vinstri-græn voru þegar þessi „óskapnaður“ var lagður fram.
„Var þetta gert með samþykki þeirra og vissi félags- og vinnumarkaðsráðherra um þetta og samþykkti hann þetta mótbárulaust?“
Guðmundur Ingi bendir á að fyrir ráðherra og alþingismenn sé persónuafslátturinn ekki stórmál og hafi ekki úrslitaatriði á afkomu þeirra. „En það er hrein og klár aðför að umræddum hópi aldraðra og öryrkja erlendis að svipta þá allt að 65.000 króna persónuafslætti á mánuði í skjóli nætur í fjáraukalögum.“
Guðmundur Ingi segir að nú fari fram endurskoðun á almannatryggingalögum er varðar málefni öryrkja og óttast hann að með svona vinnubrögðum eigi öryrkjar ekki von á góðu.
„Hvað hefur aldrað og veikt fólk gert á hlut þessarar ríkisstjórnar sem réttlætir svona fjárhagslegt ofbeldi og það strax án allrar umræðu og/eða upplýsingar til þeirra?“
Í grein sinni segir Guðmundur að Flokkur fólksins hafi komið í veg fyrir að ríkisstjórnin samþykkti þessa eignaupptöku á persónuafslættinum með því að fá henni frestað um eitt ár.
„Á þessu ári munum við í Flokki fólksins gera allt til að stöðva þetta fjárhagslega ofbeldi ríkisstjórnarinnar. Við munum aldrei samþykkja svona vinnubrögð gagnvart öldruðu og veiku fólki. Aldrei.“