Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk óvenjulega tilkynningu á sitt borð í nótt.
Í skeyti segir að tilkynnt hafi verið um mögulegan ölvunarakstur, en skömmu síðar bast önnur tilkynning og var hún frá ökumanninum sjálfum sem tilkynnti sjálfan sig.
„Þegar lögregla kom á vettvang sagði ökumaðurinn að hann hafi áttað sig á því að hann gæti ekki haldið akstri áfram sökum ölvunarástands og hann vildi ekki stofna öðrum í hættu. Ökumaðurinn handtekinn en laus að blóðsýnatöku lokinni,“ segir í skeyti lögreglu.
Nóttin virðist hafa verið tiltölulega róleg hjá lögreglu. Tilkynnt var um þjófnað á leikjatölvu úr félagsmiðstöð í grunnskóla í Reykjavík og er málið í rannsókn.
Lögregla fékk svo tilkynningu um grunsamlegar mannaferðir þar sem maður var að bera mikið af munum um miðja nótt. Lögregla fann manninn þar sem lögreglu grunaði að hann væri með meint þýfi frá nærliggjandi fyrirtækjum. Málið er í rannsókn.
Þá voru afskipti höfð af nokkrum ökumönnum sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum fíkniefna.