Þeir sem tilheyra Z-kynslóðinni svokölluðu eru margir hverjir farnir að kvíða því að hringja hefðbundin símtöl og kjósa aðra samskiptamáta, til að mynda að senda texta- eða hljóðskilaboð á samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram í umfjöllun News.com en ástæðurnar geta verið margvíslegar. Félagskvíði eða hreinlega sú staðreynd að skilaboðin eru praktískari á ýmsan hátt.
Þau þýða til að mynda að fólk getur dritað út skilaboðum og sinnt margvíslegum öðrum verkefnum á meðan beðið er eftir svari á meðan að símtal þýðir að athyglin þarf nánast öll að vera á því.
Þá getur það spilað inn í að fólk upplifir að það sé með meiri stjórn á textaskilaboðunum. Þar er yfirlit yfir samskiptasöguna og tími gefst til að velta svarinu fyrir sér á meðan símtal er óútreiknanlegra og meiri líkur á einhverskonar mistökum.
„Ef ég þyrfti að hringja eitthvert þá myndi ég tryllast,“ segir einn viðmælandi í greininni en samandregin niðurstaða umfjöllunarinnar er að sú kynslóð sem nú vex úr grasi sé að verða afhuga símtölum.