Íranska byltingaherliðið gerði í nótt loftárásir á skotmörk í Írak og Sýrlandi. Árásirnar í Írak beindust að skotmörkum í borginni Erbil, höfuðborg sjálfstjórnarríkisins Kúrdistan, og var markmið þeirra að sögn Írana að útrýma höfuðstöðvum útsendara Mossad, ísraelsku leyniþjónustunnar, í borginni. Þá beindust árásir í Sýrlandi að meintum hryðjuverkahópum.
Afleiðingarnar af árásunum í Erbil voru þær að fjórir óbreyttir borgarar eru látnir og sex slasaðir. Á meðal hinna látnu eru kúrdíski auðkýfingurinn Peshraw Dizayee og fjölskyldumeðlimir hans en loftskeyti hæfði heimili hans í borginni. Ekki liggur endanlega fyrir á þessari stundu að heimili hans hafi verið aðalskotmarkið en Dizayee stundaði umfangsmikil viðskipti við Ísrael.
Masrour Barzani, forsætisráðherra sjálfstjórnarríkisins, fordæmdi árásirnar í yfirlýsingu og sagði að um glæp gegn Kúrdum væri að ræða en Dizayee var náinn samstarfsmaður hans.
Bandaríkjamenn hafa sömuleiðis fordæmt árásirnar en í yfirlýsingu frá talsmanni Hvíta Hússins kom fram að þær væru afar óábyrgar. Ástandið er eldfimt á svæðinu og líklegt að árásirnar leiði til frekari átaka.