fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Gaf sjálfum sér stöðuhækkun, þrefaldaði laun sín og lét vinnuna borga skilnaðinn og leiguna – Situr nú í súpunni með kyrrsettan bankareikning og tugmilljóna skuld

Ritstjórn DV
Mánudaginn 15. janúar 2024 18:32

Arctic Pet framleiðir gæludýrafóður í Sandgerði

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmanni hefur verið gert að greiða fyrrum vinnuveitanda sínum rúmlega 44 milljónir fyrir að hafa látið vinnustaðinn kosta ýmis persónuleg útgjöld, sem og fyrir að hafa einhliða veitt sjálfum sér stöðuhækkun og þrefaldað laun sín.

Um er að ræða fyrirtækið Arctic Pet, íslenskt félag sem framleiðir gæludýrafóður. Félagið var stofnað árið 2013 af Ítalanum Alessandro Era ásamt félaginu Skinnfiski. Síðar eignaðist ítalska félagið SANYpet alla hluti félagsins og er í dag eini skráði hluthafi þess.

Fór einn með prókúru

Alessandro Era sat var stjórnarformaður félagsins og starfsmaður þess eftir að það var stofnað 2013 en lét af störfum tveimur árum síðar, 2015, og seldi þá hlut sinn í félaginu til SANYpet. Eftir þetta fór reksturinn að ganga brösuglega og ákváðu nýir eigendur árið 2019 að leita til Alessandro og buðu honum að gerast rekstrarstjóri. Alessandro þáði boðið en samkvæmt ráðningarsamningi áttu laun hans að vera milljón á mánuði ásamt 150 þúsund krónum í ferðakostnað. Alessandro var í kjölfarið kjörinn í stjórn Arctic Pet og var eini stjórnarmaður félagsins og prókúruhafi.

Ráðningarsamningi við Alessandro var svo rift í ágúst 2022 og í kjölfarið krafðist SANYpet þess að eignir á bankareikningum hans og félags í hans eigu yrðu kyrrsettar þar sem eigendur töldu ljóst að Alessandro hafi misnotað stöðu sína sem prófkúruhafi og stjórnarmaður og þannig svikið töluverðar fjárhæðir úr félaginu.

Gaf sér stöðu- og launahækkun

Meðal annars hafi Alessandro byrjað að kalla sig framkvæmdastjóra, án þess að hafa nokkurn tímann verið ráðinn í það hlutverk, enda enginn framkvæmdastjóri hjá Arctic Pet. Hann hafi svo einhliða þrefaldað laun sín í heimildarleysi og látið félagið greiða allskonar persónulegan kostnað, svo sem lögfræðikostnað út af skilnaði sem Alessandro var að ganga í gegnum á umræddu tímabili.

Arctic Pet lýstu því svo í stefnu að Alessandro hafi hafi í febrúar 2021 undirritað sjálfur og fyrir hönd félagsins nýjan ráðningarsamning. Þar hækkuðu laun hans töluvert með þessum löggerningi þar sem hann var í raun að semja við sjálfan sig án þess að hafa fengið nokkra heimild frá eigendum. Umsamin hafi verið milljón ásamt endurgreiddum ferðakostnaði en frá apríl 2020 hafi Alessandro greitt sér 1,5 milljón á mánuði fram til febrúar 2021, þá hafi hann hækkað launin í 2 milljónir á mánuði og svo nokkrum mánuðum seinna hafi launin verið rúmlega 3,3 milljónir á mánuði, eða um þrefalt það sem eigendur höfðu samþykkt er Alessandro var ráðinn. Alessandro hafi í nýjum samningi eins veitt sjálfum sér hlutdeilt í hagnaði félagsins, nokkuð sem eigendur könnuðust ekki við að hafa heimilað.

Alessandro var eins sakaður um að hafa keypt húsgögn til eigin nota á reikning félagsins, látið borga fyrir sig húsaleigu og ferðalög, bensín, raftæki og margt annað.

Töldu eigendur að Alessandro. hefði freklega misnotað stöðu sína sem starfsmaður og eini prófkúruhafi annars vegar sem og sem fyrirsvarsmaður félags í hans eigu sem hann hafi notað til að hafa peninga frá Arctic Pet með útgáfu tilhæfulausra reikninga.

Þrotlaus vinna og einelti

Alessandro krafðist þess að kyrrsetning yrði felld úr gildi og hann sýknaður af öllum kröfum fyrrum vinnuveitandans. Hann hafi með þrotlausri vinnu snúið miklum taprekstri yfir í plús. Fyrir þetta hafi hann þó mátt sæta því að vera lagður í einelti af nýjum eigendum félagsins sem hafi greinilega ætlað sér að bola honum burt. Allur kostnaður sem hann hafi rukkað félagið um hafi verið sökum vinnu hans í þess þágu.

Launahækkanir hafi verið samþykktar áður en SANYpet gekkst undir eigendaskipti, af þáverandi framkvæmdastjóra. Samkvæmt því samkomulagi hafi laun Alessandro átt að vera 2 milljónir á mánuði ásamt 200 þúsund króna dagpeninga utan staðgreiðslu og 5% hlutdeildar í hagnaði félagsins.

Lét vinnuna borga skilnaðinn

Dómari rakti að samkvæmt lögum um einkahlutafélög þá hefði Alessandro ekki getað hækkað eigin laun með þeim hætti sem hann gerði. Hann hefði þurft aðkomu hluthafa Arctic Pet til að gera slíkan samning enda fólk hann í sér umtalsverða hækkun á áður umsömdum launakjörum.

Dómari féllst á að Alessandro hefði með saknæmum og ólögmætum hætti misnotað aðstöðu sína til að láta félagið greiða ýmis persónuleg útgjöld hans. Dómari féllst að fullu á kröfur Arctic Pet hvað varðaði ferðakostnað Alessandro erlendis, enda ekkert komið fram sem gefi til kynna að þessi ferðalög hafi tengst vinnu hans. Eins var fallist á að Alessandro bæri að endurgreiða húsaleigu sem hann hafði rukkað vinnuveitanda sinn um, en af framburði vitna var ljóst að þetta var leiga fyrir íbúð sem hann bjó í sjálfur. Eins hafði Alessandro rukkað fyrir nettenginguna á heimili sínu og þarf hann að greiða það til baka.

Ljóst sé að lögfræðikostnaður sem Alessandro lét Arctic Pet greiða gæti ekki tengst nokkru öðru en skilnaði hans. Þetta þarf hann því að endurgreiða.

Hann var þó sýknaður hvað varðaði kostnað vegna húsgagna, eldsneytis, fartölvu, síma og heyrnartól. Dómari taldi ekki sannað að þessi kostnaður hafi ekki fallið til vegna vinnu Alessandro og eins hafði hann lýst því yfir að skila raftækjunum þegar málaferlum þessum væri lokið.

Eins þarf félag Alessandro að endurgreiða 19,8 milljónir sem það hafði fengið frá Arctic Pet fyrir ýmsa reikninga. Alessandro hafi í engu sannað að þessa greiðslur ættu rétt á sér eða lagt fram skrifleg gögn þeim til grundvallar. Af öllu mætti heldur sjá að félagið hans sjálfs væri í engum rekstri og því tæpast réttlætanlegt að Arctic Pet hafi greitt fleiri milljónir til þess fyrir leigu á bifreið og öðrum tækjum. Einkum í ljósi þess að félagið átti hvorki bifreið, né tæki.

Því var kyrrsetning staðfest og Alessandro gert að greiða 24,3 milljónir til baka til Arctic Pet og svo óskipt með félagi sínu 19,8 milljónir. Loks þarf hann að greiða 1.2 milljónir í málskostnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg
Fréttir
Í gær

Leita að einstaklingi í Tálknafirði sem hefur ekki náðst í um tíma

Leita að einstaklingi í Tálknafirði sem hefur ekki náðst í um tíma
Fréttir
Í gær

Læknar vara við því að vinsælar olíur geti verið að valda mikilli aukningu krabbameins í ungu fólki

Læknar vara við því að vinsælar olíur geti verið að valda mikilli aukningu krabbameins í ungu fólki
Fréttir
Í gær

Talaði Trump af sér?

Talaði Trump af sér?
Fréttir
Í gær

Pólski forsætisráðherrann segir að friðarviðræður hefjist hugsanlega í vetur

Pólski forsætisráðherrann segir að friðarviðræður hefjist hugsanlega í vetur