Það vakti athygli undir lok síðasta árs þegar stjórn KSÍ veitti formanni sambandsins, Vöndu Sigurgeirsdóttur, umboð til að ræða við Åge Hareide landsliðsþjálfara um mögulega framlengingu á samningi hans.
Hareide tók við stjórn íslenska liðsins síðasta vor og er hann samningsbundinn út umspilið um sæti á EM, sem fram fer í mars. Framlengist hann sjálfkrafa ef Ísland tryggir sér þátttökurétt á EM í Þýskalandi næsta sumar.
Vanda mun ekki gefa kost á sér áfram sem formaður KSÍ á ársþingi sambandsins í febrúar og vakti því athygli að hún ætlaði að ræða við Hareide um nýjan samning.
Guðni Bergsson, frambjóðandi til formanns KSÍ og fyrrum formaður sambandsins, var spurður út í þessi mál í sjónvarpsþætti 433.is.
„Það má alveg velta fyrir sér tímasetningunni og hvort hún sé eðlileg og ráðleg,“ sagði Guðni.
„Þar sem hann er með samning fram yfir umspilið finnst manni þetta skrýtið. Hvað ef við náum ekki saman um framhaldið? Hvernig yrði stemningin þá? Hvort það yrði þá ekki eðlilegra að sjá hvernig gangi í þessum umspilsleikjum. Vonandi bara klárum við þá.“
Ísland mætir Ísrael í undanúrslitum um sæti á EM og svo Úkraínu eða Bosníu ef sá leikur vinnst.
„Hins vegar veit ég, þar sem ég er ekki þarna inni núna, að það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum og ég veit að það er mikil ánægja með störf Åge Hareide.
Ég er ekki með allar forsendur en það er eilítið skrýtið, utan frá séð, að það sé verið að rjúka í þetta núna,“ sagði Guðni.
Viðtalið í heild er í spilaranum en einnig má hlusta á það hér að neðan, sem og á helstu hlaðvarpsveitum.