Í vikunni sem leið var ég að blaða í Nýjum félagsritum Jóns Sigurðssonar, nánar tiltekið 3. árgangi frá 1843. Þar getur Jón þess að skortur á landvörnum sé einn helsti vandi Íslendinga. Úr honum verði að bæta hið fyrsta „til þess að geta notið frelsisins því óhultar“. Allar aðrar þjóðir byggju við landvarnir og Jón leit í þessu sambandi til sögunnar, því alkunna væri að Íslendingar hefðu á fyrri öldum þótt manna óhræddastir í bardögum og haldið vel á rétti sínum. Hann hvatti til þess að komið yrði upp heimavarnarliði — ungir menn tækju sig saman „um að eignast góðar byssur með góðum aðbúnaði öðrum, og hver kepptist við annan að læra sem best að skjóta og fara með byssur, en reyndi síðan list sína við og við allir saman á mannfundum, svo nokkur hátíðarbragur væri að“. En það væri kunnugra en frá þyrfti að segja „hversu mjög það dirfir menn og hvetur að kunna að fara með vopn, og að sama skapi mundi það lífga þjóðaranda og hug manna, að sá liðskostur væri í landinu að það væri ekki uppnæmt fyrir einni hleypiskútu eða fáeinum vopnuðum bófum“.
Jón Sigurðsson var klassískt menntaður og þekkti því vitaskuld Hómerskviður. Þær eru uppfullar af spakmælum og má í þessu sambandi vísa til 12. þáttar Ilíonskviðu. Polýdamant, undirforingi í herliði Trójumanna, vildi fara sér hægar í vörnum borgarinnar en Hektor, prins af Tróju, einhver dáðasta hetja sem sögur fara af. En Hektor er látinn mæla svo við Polýdamant: „Ein er forspáin öllum betri, og það er sú að verja ættjörð sína.“
Það sem lögreglustjórinn sagði
Mikilvægi góðra blaðamanna verður seint ofmetið. Einn þeirra, Ólafur E. Jóhannsson, ritaði frétt um erlenda brotamenn sem birtist í Morgunblaðinu á fimmtudaginn var. Þar ræddi hann við Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, sem kvaðst hafa verulegar áhyggjur af „umferð um innri landamæri hér á landi“ eins og hann orðaði það. Erlendir brotamenn sæki stíft hingað og þeim sé leiðin greið inn í landið. Í fréttinni segir að af 241 gæsluvarðhaldsúrskurði sem kveðinn hafi verið upp í fyrra hafi 132 verið að kröfu lögreglunnar á Suðurnesjum. Þar af hafi 92 verið vegna innflutnings á fíkniefnum og/eða vegna peningaþvættis í tengslum við skipulagða brotastarfsemi. Lögreglu og tollgæslu hafi tekist að ná meiri árangri en fyrr við að hafa uppi á brotamönnum en staðan væri samt sem áður sú að við hefðum ekki fullkomna stjórn á því hverjir kæmu til landsins.
Það var til marks um hvers konar ólag er á þessum málum að fregnir bárust af því í liðinni viku að liðsmaður hermdarverkasamtakanna Íslamska ríkisins hefði verið handtekinn á Akureyri. Flestum eru í minni fjöldaaftökur umræddra samtaka, pyntingar, nauðganir og eyðilegging menningarverðmæta. Það er vitaskuld reginhneyksli að slíkir óhæfumenn eigi greiða leið hingað til lands og hlýtur að kalla á miklu viðurhlutameiri öryggisráðstafanir á Keflavíkurflugvelli.
Segir mér þó hugur að ríkisstjórnin muni ekki grípa til neinna raunhæfra aðgerða í þessum efnum frekar en öðrum brýnum hagsmunamálum þjóðarinnar.
Eigum að huga miklu betur að öryggismálum
Ef við víkjum aftur að öryggi ríkisins þá kom út í fyrra vor lítið kver eftir Arnór Sigurjónsson, fyrrv. skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem ber heitið Íslenskur her. Ég hef áður gert ritið að umtalsefni hér á þessum vettvangi, en það hefur að minni hyggju hlotið alltof litla athygli.
Arnór bendir þar meðal annars á að Lúxemborgarar, sem eru 645 þúsund talsins, sjái sér hag í því að hafa á að skipa eigin herliði sem býr yfir sérfræðiþekkingu og búnaði til að tryggja öryggi og varnir ríkisins — á þeirra eigin forsendum. Fullvalda ríki sé nauðsynlegt að taka sjálfstæðar ákvarðanir í þessum efnum, þó svo að þær séu teknar í samvinnu við bandalagsþjóðir og fjölþjóðastofnanir. Herlið Lúxemborgara telur 939 sjálfboðaliða.
Arnór leiðir einnig rök að því að íslenskt heimavarnarlið hafi raunverulegt gildi — þvert á það sem margir halda fram. Þjóðin sé nógu fjölmenn „til að takast á við þá áskorun að tryggja innviði í upphafi átaka áður en liðsauki berst til Íslands“. Það sé einfaldlega rangt að Íslendinga skorti burði og fjárhagslega getu til að starfa með virkum hætti að eigin vörnum. Aftur á móti skorti pólitískan vilja og áræði. Hann spyr áleitinnar spurningar í þessu efni: hvort það sé ábyrg afstaða og samboðin virðingu fullvalda ríkis að láta aðra annast öryggis- og varnarmál rétt eins og þau komi því ekki við.
Hvort sem rétt er að stíga það skref að stofna til heimavarnarliðs eður ei er ljóst að alvarlegra aðgerða er þörf til að sporna við því að erlendir brotamenn eigi greiða leið inn í landið og að glæpasveitir fái að hreiðra hér um sig. Við blasir hversu illa er staðið að þeim málaflokki sem í reynd er mikilvægastur allra: að tryggja öryggi borgaranna.