Eric Dier er ekki búinn að finna sér heimili í Þýskalandi eftir að hafa skrifað undir hjá Bayern Munchen á dögunum.
Dier mun leika með Bayern út tímabilið á láni frá Tottenham og hittir þar fyrrum liðsfélaga sinn, Harry Kane.
Kane hefur sjálfur eignast hús í Munchen og býr þar ásamt fjölskyldu sinni og var talað um að Dier gæti mögulega flutt inn þar tímabundið þar til í sumar.
Englendingurinn virðist hafa lítinn áhuga á því en ætlar þó að kíkja í heimsókn til félaga síns til margra ára.
,,Ég veit ekki hvort það sé pláss fyrir mig, ég hef ekki heimsótt hann ennþá,“ sagði Dier.
,,Hann er búinn að bjóða mér í heimsókn og ég mun kíkja en ég efast um að ég sé að fara flytja inn til hans.“
,,Hann á nóg af börnum og húsið er væntanlega stútfullt. Ég vil ekki gera honum erfiðara fyrir.“