Marco Silva, stjóri Fulham, var allt annað en sáttur í gær eftir leik sinna manna gegn Chelsea í efstu deild.
Fulham þurfti að sætta sig við 1-0 tap gegn Chelsea en Cole Palmer gerði eina markið úr vítaspyrnu.
Malo Gusto, leikmaður Chelsea, var heppinn að fá ekki rautt spjald í viðureigninni fyrir groddaralegt brot á vængmanninum Willian.
Mauricio Pochettino, stjóri Chelsea, viðurkenndi sjálfur að Gusto hafi mögulega átt að fá rautt, eitthvað sem Silva tekur svo sannarlega undir.
,,Þetta á að vera rautt spjald, það er erfitt að skilja af hverju það er enginn stöðugleiki í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Silva.
,,Í níu af tíu skiptum hefði þetta verið rautt spjald. Tæklingin var stórhættuleg og hefði getað slasað leikmanninn. VAR kíkti á þetta en ákvað að dæma ekkert.“