Íbúar Grindavíkur eiga að yfirgefa bæinn þegar í stað í ljósi aukinnar jarðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni sem hófst klukkan þrjú í nótt. Er fólk beðið um að taka aðeins það nauðsynlegasta með sér og gæta að hálku á veginum.
Jarðskjálftavirkni tók að aukast mjög við Sundhnúksgígaröðina um klukkan þrjú í nótt. Í samtali við RÚV sagði Böðvar Sveinsson, nátturuvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands að aukningin gæti verið merki um gosóróa.
Rétt fyrir klukkan fjögur sendu Almannavarnir út skilaboð um rýmingu á svæðinu og skömmu síðar, eða kl.4.07, reið yfir stærsti skjálfti hrinunnar sem samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum mældist 3,4 á Richter-kvarða.
Í tilkynningu frá Náttúruvávakt segir að hátt í 200 jarðskjálftar hafi verið mældir á svæðinu og virknin sé að færast í átt að Grindavík. Bæði borholuþrýstingsmælingar (frá HS Orku) og rauntíma GPS stöðvar á svæðinu sýna einnig breytingar og því er líklegt að kvikuhlaup sé að eiga sér stað. Túlkun á þessum gögnum bendir til þess að eldgos sé yfirvofandi. Hraungos er líklegasta sviðsmyndin.
Syðstu skjálftar eru aðeins um kílómetra norðan við Grindavík.