Rússneski auðkýfingurinn og forseti knattspyrnufélagsins AS Monaco , Dmitry Rybolovlev, er niðurbrotinn yfir svikum sem kostuðu hann milljarða. Hann segir sökudólginn vera svissneskan listmiðlara sem hafi stundað brot sín undir væng eins virtasta uppboðshúss í heimi, Sotheby. Dmitry segist stíga fram með sögu sína öðrum víti til varnaðar, en hann sé ekki sá eini sem varð fyrir barðinu á svikunum, heldur séu þau alltof algeng. Hann kallar eftir betra gagnsæi í listaheiminum.
Dmitry gaf á dögunum skýrslu fyrir dómi í Manhattan í Bandaríkjunum, en auðmaðurinn hefur stefnt uppboðshúsinu. Auðmaðurinn segist hafa treyst listmiðlara sínum, Yves Bouvier, í blindni.
„Þegar þú treystir fólki, og ég er ekki maður sem treystir auðveldlega, en þegar traustið er komið er viðkomandi orðinn eins og hluti fjölskyldu þinnar,“ sagði Dmitry í skýrslu sinni, alveg miður sín og laut höfði til að þurrka burtu tár áður enn hann treysti sér til að halda áfram.
„Það kemur sá tími að þú ert algjörlega og skilyrðislaus farinn að treysta manneskju.“
Dmitry vill að Sotheby’s gangi í ábyrgð fyrir það tjón sem listmiðlarnir olli auðkýfingnum. Rússinn segir tapið nema um 22,4 milljörðum, en meint brot miðlarans eru sögð felast í því að Bouvier keypti fræg listaverk í gegnum Sotheby’s og seldi þau svo til auðkýfingsins á uppsprengdu verði. Dmitry segist hafa varið um 280 milljörðum í að kaupa listaverk á árunum 2002-2014, en Rússinn hafði hug á því að koma sér upp safni á heimsklassa.
Þegar verjandi uppboðshússins gekk á Dmitry viðurkenndi hann að hafa ekki sérstaklega gaumgæft þau gögn sem listmiðlarinn hafði afhent honum, en þar hefði hann mögulega getað komið auga á svikin mun fyrr. Rússinn sagði það þó ekki breyta því að Sotheby’s gæti ekki hafa leynst hvað var í gangi og ef menn eins og Dmitry geti ekki treyst svona stóru uppboðshúsi til að koma hreint fram, þá geti almennir leikmenn það ekki heldur.
„Þetta snýst ekki um peninga. Tja, ekki BARA um peninga. Það er mikilvægt að meira gagnsæi ríki í heimi listarinnar. Því þegar stærsta fyrirtækið í þessum bransa tekur þátt í skítverkum sem þessum, þá eiga skjólstæðingar þeirra ekki séns.“
Verjandi Sotheby’s sagði í upphafsávarpi sínu í aðalmeðferð málsins að hér sé rússneski auðmaðurinn að draga saklausan þriðja aðila til ábyrgðar fyrir eitthvað sem annar gerði honum. Á móti þessu sagði sækjandi Dmitry: „Sotheby’s hafi val, þau völdu græðgi.“
Þrátt fyrir að viðskiptin í gegnum listmiðlarann umdeilda hafi verið fjölmörg eru aðeins fjögur þeirra tekin fyrir í þessu máli. Eitt varðar málverk eftir sjálfan Leonardo da Vinci sem kallast Salvator Mundi, eða bjargvættur heimsins. Þetta verk keypti Bouvier af Sotheby’s á 11,6 milljarða en seldi svo til Dmitry degi síðar á 17,7 milljarða. Líklega getur Rússinn ekki kvartað mikið því nokkru seinna seldi hann sjálfur verkið á 62,9 milljarða, sem gerði það að dýrasta verki sem selt hefur verið á uppboði fyrr og síðar.
Dmitry segir að grunsemdir hans hafi vaknað þegar hann las frétt árið 2013 um að Sotheby’s hafi selt verkið Water Serpents II eftir málarann Gustav Klimt á 16,8 milljarða árinu áður. Þetta gat ekki staðist, hugsaði Dmitry, enda var það hann sem keypti verkið og hann hafði borgað 25,6 milljarða fyrir það. Bouvier fullvissaði auðkýfinginn um að ekkert væri athugavert við þetta, enda fréttamenn gjarnir á að bulla með svona fjárhæðir. Listmiðlarinn sagði það sama þegar fregnir bárust af DaVinci verkinu.
Dmitry segir ljóst að Bouvier, Sotheby’s sem og fleiri, hafi notfært sér það að hann vissi ekki aura sinna tal og þó hann væri sjóaður viðskiptamaður þá hafði hann ekki mikla þekkingu á list.
Listmiðlarinn Bouvier hefur neitað sök og lögmenn hans hafa vakið athygli á því að Dmitry hafi reynt að draga listmiðlarann til saka í Singapore, Hong Kong, New York, Mónakó og Sviss. Hvergi hafi málinu verið tekið alvarlega. Engu að síður treysti Bouvier sér ekki í málaferli og gerði í desember sátt við auðkýfinginn. Þær fjárhæðir sem hann greiddi í sáttargreiðslu hefur ekki verið opinberuð en með samkomulagi sem þar náðist lýstu báðir yfir að eiga engar kröfur á hendur hinum.
Dmitry er ekki á flæðarskeri staddur í heimalandinu þrátt fyrir listsvikin. Hann ar árið 2018 á lista yfir ólígarka sem eru hliðhollir forseta Rússlands, Vladimir Putin, en var samt svo heppinn að sleppa við efnahagsþvinganir sem margir aðrir bandamenn forsetans hafa þurft að sæta frá innrásinni í Úkraínu. Dmitry er lærður hjartalæknir og starfaði sem slíkur áður en hann sneri sér að viðskiptum. Hann hefur ekki verið búsettur á Rússlandi síðan fyrir aldamótin.