Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segist uggandi yfir því hvernig meirihlutinn í borgarstjórn ráðist á bókasöfn borgarinnar. Frá því var greint í gær að Borgarbókasöfn borgarinnar verða lokuð til skiptis í þrjár vikur í sumar vegna hagræðingarkröfu frá Reykjavíkurborg.
Kolbrún vekur athygli á málinu í færslu á Facebook þar sem hún segir standa til að skerða opnunartíma bókasafna í hagræðingaskyni.
„Hvað kemur næst? Skólabókasöfn? Það er sífellt verið að tilkynna um skerðingar á þjónustu við fólk í Reykjavík. Það eru leikskólarnir, sundlaugarnar og núna bókasöfnin. Það er flestum í fersku minni tillaga þjónustu- og nýsköpunarsviðs með KPMG skýrsluna í vasanum að leggja niður Borgarskjalasafn. Ég hef lýst áhyggjum mínum af skólabókasöfnum að þau muni einn góðan veðurdag vera steypt saman á einhverjum einum stað í borginni eða tveimur. Það er einhver herferð í gangi gagnvart bókasöfnum. Sviðum er gert að hagræða og það hlýtur að vera hægt að hagræða með örðum hætti en að skerða beina þjónustu við fólkið. Annað eins er nú bruðlað í borginni.
Nú nýlega var sem dæmi ákveðið að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar á Austurstræti. Ef horft er til annarra sviða þá má skoða hagræðingu í ráðningum og skipuleggja verkefni betur þannig að skilvirkni verði meiri frekar en að skerða þjónustu.“
Kolbrún hafði leitað svara fyrir áramót hjá skóla- og frístundasviði um framtíð skólabókasafna. Í svarinu var tekið fram að gera megi ráð fyrir að grunnskólabörn hafi aðgang að skólabókasafni, eða hafi með öðrum hætti aðgang að þjónustu slíks safns sem sé upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Kolbrún segir svarið staðfesta það sem hún óttist mest – þarna sé bókstaflega gert ráð fyrir möguleikanum að leggja niður skólasöfn í núverandi mynd, færa þau út úr skólunum og gera þjónustuna miðlæga. Þar með geti nemendur ekki lengur heimsótt skólasafn í frímínútum eða eyðum.