fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Eyjan

Jóhannes Loftsson: Vanmetin lífshætta í Grindavík og Bláa Lóninu kallar á nýja nálgun

Eyjan
Laugardaginn 13. janúar 2024 00:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yfirvöld eiga ekki að banna fólki að fara heim til sín eða að sækja vinnu, en það hvílir samt á þeim óskráð skylda að meta hættur og vara fólk við.  Án slíks hættumats er erfiðara að taka upplýsta ákvörðun þegar lífið liggur við.

Að undanförnu hefur Veðurstofan birt hættumat sem allir horfa til. En á hættumatskortinu er meiriháttar takmörkun, því þar segir: „Þetta kort tekur ekki tillit til þeirrar áhættu sem felst í því að fara inn á svæðin sem tilgreind eru“. Hættumatið metur ekki áhættu fyrir fólk og er því bara líkindamat!

Banvænn rúmkílómetri á 30 sekúndum

Mesta áhættan frá gosinu er líklega loftmenguninni í upphafi eldgossins áður en nokkur nær að flýja burt. Engar mælingar eru til af þessum upphafsmínútum síðasta eldgoss, en fyrstu klukkutímana var meðalhraunflæðið um 300 m3/s.  Miðað við ofsann í upphafi má þó áætla að stærðargráða upphafshraungusunnar hafi verið um 1000 m3/s eða tveimur stærðargráðum meira en í Fagradalsfjallstúristagosunum. Eldgosið í litla Hrút framleiddi 30-130 kg/s af brennisteinsdíoxíð. Ef það mat er yfirfært á upphafsmínútur Sundhnúkagígagossins, samsvarar það því að það tæki ekki nema 30 sekúndur að fylla einn rúmkílómetra lofts af banvænu magni brennisteinsdíoxíðs (100 ppm).

Brennisteinsdíoxíð er tvöfalt þyngra en loft og sest í allar lægðir í landi. Það myndar brennisteinssýru og ertir augu og lungu sem gerir enn erfiðara að komast undan þegar hætta steðjar að.

Í líkindamati Veðurstofunnar er sýnt að miklar líkur séu á gosi alveg að efstu húsum í Grindavík og  prófessor Magnús Tumi Guðmundsson, hefur varað við að gos gæti hafist í bænum.  Líkindamatið sýnir einnig að sama hættusvæði teygir sig í eitt horn lægðarinnar við Svartsengi.  Þar liggur m.a. stóra sprungan í Þorbirni og 28.desember opnuðust þarna sprungur í Grindavíkurvegi. Miðja landrisins er einnig í þessari lægð. Lífshættulegt gas frá eldgosi sem hefst á þessum stöðum gæti fyrirvaralaust lagst yfir Bláa Lónið eða Grindavíkurbæ. 

Óhagstæð vindátt getur líka orðið krítísk.  Ef gos eins og varð 18. desember endurtæki sig í óhagstæðari vindátt sem blési í átt að byggð, gætu skapast lífshættulegar aðstæður í Bláa Lóninu eða Grindavík.

Reikna þarf loftdreifingu frá gosi

Nú þegar búið er að opna Bláa Lónið og ýmsir hafa flutt aftur í Grindavík, er mikilvægara en nokkru sinni að fólk sé upplýst um þá hættu sem það kann að vera í.  Ein leið til að meta hættuna væri að útbúa loftdreifingalíkan fyrir gosmengun við upphaf gos. Sem viðmið mætti t.d. miða við síðasta gos og meta hvort mengunin þá hefði getað náð lífshættulegum styrk í Grindavík ef vindáttin hefði verið óhagstæð. Eins þarf að meta hættuna við Voga og Bláa Lónið.  Gæti þar skapast lífshætta í upphafi gos sem hæfist fyrirvaralaust eins og síðast? Hversu langan tíma hafa menn þá til að koma sér undan?

Þetta þurfa allir sem dvelja á hættusvæðunum að vera upplýstir um.

Sprunga sem getur ekki lokast

Hið hræðilega slys sem varð í Grindavík er maður féll í sprungu ætti að vera aðvörun um þær óþekktu hættur sem þar kunna að leynast.  Nú hefur komið í ljós að mælingar sýna að um 8 m gliðnun hafi orðið undir Grindavík vestanverðri á eins og hálfs kílómetra dýpi.  Þetta þýðir að sprungan mun líklega halda áfram að opna sig í langan tíma. Eins er grunnvatnsborð á litlu dýpi og þar gætir líklega sjávarfalla, sem þýðir að sérhver fylling sem fer í sprunguna mun sífellt vera að skolast í burt.  Það er ekki hægt að fylla slíka sprungu því fyllingin mun alltaf geta opnast aftur.  Eina sem hægt er að gera er að girða sprungusvæðið á meðan landið jafnar sig og byggja brýr þar sem fara verður yfir.  Allt annað gæti verið uppskrift að öðru slysi.

Nýja langtímanálgun gæti þurft

En erum við virkilega á réttri leið.  Varnargarðar stöðva ekki eitraða loftmengun og botnlausar sprungur er ekki hægt að fylla. Kröflueldar stóðu í 9 ár og mögulegt er að þessar jarðhræringarnar í Grindavík geti staðið í mjög langan tíma.  Vanþekking er engin vörn gegn náttúruöflunum og því þarf að greina allar hættur vandlega áður en lengra er haldið.  Ef í ljós kemur að það sé lífshættulegt að dvelja á svæðinu þarf að breyta um stefnu og finna langtímalausn fyrir fólk og fyrirtæki svo þau geti flutt á öruggan stað til lengri tíma.

Ef haldið er áfram að byggja öryggi á óskhyggju gæti hið óhugsandi gerst: Hörmungar sem ekki verðar aftur teknar.  Stórslys í Bláa Lóninu myndi stórskaða orðspor Íslands og mannslíf sem tapast verða aldrei bætt.

Höfundur er efnaverkfræðingur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolbeinn spyr hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu – „Ég er hreint ekki sannfærður“

Kolbeinn spyr hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu – „Ég er hreint ekki sannfærður“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halldór Auðar snýr baki við Pírötum – „Niðurstaða kosninganna fyrst og fremst endurspeglun á löskuðu innra starfi“

Halldór Auðar snýr baki við Pírötum – „Niðurstaða kosninganna fyrst og fremst endurspeglun á löskuðu innra starfi“