Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og lektor í fjármálum, fer hörðum orðum um rafmyntir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Rafmyntir séu ekki alvöru verðmæti og öll starfsemi tengd afmyntaviðskiptum hafi einkenni pýramídsvindls. Hann sakar RÚV um að ýtta undir féflettingu með kynningu sinni á þessum viðskiptum.
„Það kemur fyrir að Ríkisútvarpið, sem hefur ýmsar skyldur sem almannaútvarp, ræði um og birti fregnir af efni líkt og um alvöru sé að ræða. Nokkrum sinnum hefur fulltrúi Myntkaupa komið til viðtals um rafmynt sem um alvöru verðmæti sé að ræða. Rafmynt hefur öll einkenni glópagulls og öll starfsemi tengd rafmyntaviðskiptum hefur einkenni pýramýdasvindls. Þeir, sem koma fyrstir inn í leikaraskapinn, fara út með verðmæti þeirra sem koma síðastir inn. Þetta heitir féfletting. Og almannaútvarp á ekki að taka þátt í kynningu á þess háttar féflettingu, án þess að vara við starfseminni. Rétt eins og RÚV sé auglýsingport án endurgjalds.“
Vilhjálmur gagnrýnir jafnframt Seðlabankann fyrir að vara ekki nægilega mikið við rafmyntum, hins vegar hafi Landsvirkjun áttað sig á því að rafmyntagröftur sé sviksamlegur og segist ekki selja orku til slíkrar starfsemi.
Í greininni fer Vilhjálmur yfir nokkrar tegundir peningalegra eigna. Að hans mati stendur rafmynt höllum fæti gagnvart eignum á borð við reiðufé og gull, svo dæmi séu tekin. Hann bendir á að peningalegar eignir séu forsenda lífeyris eldri borgara. Vilhjálmur segir:
„Vissulega eru flestar peningalegar eignir skráðar með rafrænum hætti, en það er vitað um skuldara samkvæmt skilmálum hinna rafrænu eigna. Einnig er vitað hvert er hið undirliggjandi hlutafélag sem á í hlut og einnig hver er starfsemi þess, ef eigandi hefur áhuga á að vita það. Rafmynt er ekki þessum kostum búin.“
Hann segir ennfremur:
„Peningalegar eignir breytast frá ári til árs og eru eitt í sigri, annað í ósigri, því takmarkið með þeim er meira virði en baráttan.“