Það er komið að stóru stundinni hjá íslenska karlalandsliðinu í handbolta. Liðið hefur leik á Evrópumótinu í dag. Það var hitað upp fyrir mótið í Íþróttavikunni, sem kemur út alla föstudaga á 433.is, Hringbraut.is og undir hlekk Hringbrautar í Sjónvarpi Símans.
Ísland mætir Serbíu klukkan 17 í dag en í Íþróttavikunni var rætt um væntingar til íslenska liðsins á mótinu.
„Draumur er að sjá okkur fara í undanúrslit en ég vil sjá okkur í topp átta, klárlega,“ sagði Hrafnkell Freyr Ágústsson.
„Ef við vinnum Serba held ég að við vinnum alla. Við vinnum Svartfellinga alltaf og Ungverjar eru ekki eins góðir og undanfarin ár,“ sagði hann jafnframt um leiki Íslands í riðlakeppninni.
Skemmtikrafturinn Bolli Már Bjarnason var gestur þáttarins og vill hann setja markið hátt.
„Væntingar mínar eru bara undanúrslit. Er þetta ekki þriðja mótið í röð þar sem við eigum loksins að vera komin á einhvern stað með þessa leikmenn? Núna fyrst er þessi staður mættur.“
Fari Ísland upp úr riðlinum, sem er líklegt, mætir liðið Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og Króatíu í milliriðili. Það verður ansi erfitt verkefni.
„Milliriðillinn lítur verr út á pappír en hann er í raun og veru,“ sagði Hrafnkell hins vegar og færði rök fyrir sínu máli.
„Ég sá Þjóðverja í vikunni og þeir eru ekkert spes. Þeir eru að byggja upp og eru ekki líklegir til árangurs að mínu mati. Króatar eru ekkert miðað við síðustu ár. Frakkar og Spánverjar, ég ætla ekki að tala þau neitt niður.“
Umræðan í heild er hér að neðan.
Íþróttavikan í heild kemur út í kvöld á 433.is og á helstu hlaðvarpsveitur.