Dr Jason Singh, læknir í Virginíuríki í Bandaríkjunum, segir að fólk eigi ekki að nota náttfötin marga daga í röð og alls ekki vikum saman. Hann segir að ef fólk notar sömu náttfötin dögum saman byrji dauðar frumur, vökvar og önnur efni að safnast fyrir í þeim.
Þetta getur ýtt undir bakteríuvöxt og það sem þú þarft allra síst þegar þú sefur er að vera í óhreinum náttfötum. Mirror segir að í færslu Dr Singh um málið á Instagram komi fram að það geti þó verið breytilegt á milli fólks hversu marga daga það getur notað náttfötin, til dæmis svitni fólk mismunandi mikið og einnig skipti hitinn að næturlagi máli.
Í færslunni segir hann að ekki eigi að nota náttföt meira en þrjár nætur í röð. „Ég veit að mörg ykkar elska að sofa í sömu náttfötunum vikum saman en ég ætla að segja ykkur að það er frekar ógeðslegt,“ sagði hann.
Laura Mountford, sem er titluð sem þvottasérfræðingur, sagði í samtali við Independent að það sama gildi um náttföt og önnur föt, sum okkar gerist hugsanlega sek um að þvo náttfötin of oft eða ekki nægilega oft. „En í raun á að þvo náttföt þegar þau hafa verið notuð tvisvar eða þrisvar. Að þvo þau eftir hverja notkun, nema það séu blettir í þeim, þau lykti eða sviti hafi komið í þau, er bruðl á peningum, vatni og orku,“ sagði hún.