Edda Björk Arnardóttir hefur verið dæmd í 20 mánaða fangelsi í Noregi fyrir að hafa numið syni sína þrjá á brott þvert á vilja barnsföður hennar, sem jafnframt fer með fulla forsjá drengjanna.
Edda hafði sótt drengina til Noregs og flogið með þá til Íslands í einkaflugvél á fölsuðum vegabréfum. Drengirnir dvöldu svo með henni hér á landi þar til rétt fyrir jól þegar þeir voru afhentir föður sínum að nýju. Edda vísaði til þess að framganga hennar væri í þágu drengjanna. Þeir væru ekki að njóta þeirrar umönnunar sem þeir eiga skilið hjá föður og jafnframt þrái þeir að búa á Íslandi þar sem stórfjölskylda þeirra er búsett. Afar takmörkuð umgengni sem Edda hafði við drengina hafi verið bæði henni og þeim þungbær, en þau máttu aðeins hittar í 16 klukkustundir á ári, undir eftirliti og máttu bara ræða saman á norsku.
Nú hefur Nútíminn greind frá þeim forsendum sem lágu fyrir dóminum yfir Eddu í Noregi. Þar var um fjölskipaðan dóm að ræða, en alls dæmdu þrír í málinu og komust einróma að niðurstöðu um að gera Eddu 20 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir brot sín.
Rakið er í dómi að brottnám drengjanna hafi átt sér stað í þaulskipulagðri aðgerð, sem hafi kostað töluverða peninga og krafist falsaðra ferðaskilríkja. Þetta beri vott um bæði einbeittan ásetning sem og faglega skipulagningu.
Varnir Eddu sem byggjast á því að drengjunum sé betur borgið með henni, haldi engu vatni. Forsjárhæfni föður hafi ítrekað verið metin, sem og fjöldi ávirðinga sem Edda hafi lagt fram gegn barnsföður. Þetta hafi fagmenn tekið til rækilegrar skoðunar og hafi niðurstaðan í öllum tilvikum verið sú að faðir væri góður uppalandi og líklegri til að bjóða drengjunum góð skilyrði en móðir þeirra.
Edda hafi frá því að hún nam drengina á brott vísvitandi sagt ranga útgáfu af málinu í íslenskum fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum sem og með öðrum leiðum. Hún hafi áður verið dæmd til refsingar fyrir að nema drengina á brott árið 2020, og ljóst að sú refsing hafði engin varnaðaráhrif, enda hafi Edda svo framið sama brotið að nýju og það þrátt fyrir tilraunir norskra yfirvalda til að fyrirbyggja slíkt, svo sem með takmarkaðri umgengni við drengina undir ströngu eftirliti.
Faðir drengjanna hafi borið skaða af þessu broti Eddu. Hann glími við þunglyndi og hugsanir um sjálfsskaða enda óttast að fá seint eða aldrei að sjá syni sína aftur. Faðir hafi óttast um líðan þeirra og ekki tekist að fá neinar sannreynanlegar upplýsingar um afdrif þeirra.
Dómarar töldu í ljósi ofangreinds að ákæruvaldið hafi gengið oft vægt fram í refsikröfum sínum. Fangelsi í eitt ár og átta mánuði endurspegli ekki hversu alvarlegt brotið er. Þá sérstaklega í ljósi þess að hér er ekki um fyrsta brot að ræða heldur ítrekun. Brot Eddu hafi eins haft áhrif á drengina sem glími við erfiðleika og áskoranir í skóla, en Edda hafi ekki tekið á þessum málum með fullnægjandi hætti. Eðlilegra væri að gera Eddu að sæta tveggja ára óskilorðsbundinni refsingu.
Eins var Eddu gert að greiða barnsföður um 1,5 milljón í bætur og hafði réttargæslumaður drengjanna gert þann fyrirvara að mögulega yrði síðar lögð bótakrafa fram fyrir hönd drengjanna þriggja.
Líklega er von á Eddu Björk heim til Íslands á næstunni en meðal forsenda fyrir framsali hennar til Noregs var að dómur yrði afplánaðar hérlendis.