Svo gæti farið að leikur Manchester United í 4. umferð enska bikarsins verði færður á hlutlausan völl.
United tryggði sig áfram með sigri á Wigan á mánudag en næsta umferð fer fram síðustu helgina í þessum mánuði.
Þar mæta lærisveinar Ten Hag Newport County, sem spilar í ensku D-deildinni, eða utandeildarliðinu Eastleigh.
Liðin mætast í endurteknum leik á heimavelli Eistleigh á þriðjudag og vinni heimamenn fá þeir heimaleik gegn United.
Leikvangur þeirra tekur hins vegar aðeins rúmlega 5 þúsund manns. Ljóst er að gífurleg eftirspurn verður eftir miðum taki liðið á móti United og er því velt upp hvort leikurinn verði færður.
Félagið stefnir að því að spila á heimavelli sínum, fari það í leikinn, en fari það á skjön við öryggisviðmið mun Eastleigh skoða að færa leikinn á hlutlausan völl. Þyrfti það að vera sá völlur sem er næst þeirra velli og hentar.
Eastleigh ætlar annars að reyna að auka fjölda sæta með bráðabirgðastúkum.