Landsliðum Ísraels hefur verið meinuð þátttaka í heimsmeistarakeppni í íshokkí. Karlaliðið átti að keppa við íslenska landsliðið í annarri deildinni í apríl.
Alþjóða íshokkísambandi, IIHF, ákvað í dag að meina Ísrael þátttöku í mótinu. Ástæðan er sögð áhyggjur af öryggi allra keppenda á mótinu, þar með talið Ísraelum sjálfum. Ekki sé hægt að tryggja það á þessari stundu eftir að stríðið á Gaza braust út.
Karlaliðið átti að spila í deild númer 2 í Serbíu en kvennaliðið í deild númer 3 í Eistlandi.
Í yfirlýsingu sambandsins segir að ákvörðunin hafi verið vandlega ígrunduð, byggi á áhættumati og hafi verið tekin í samráði við þátttökuríki sem og Serbíu og Eistland.
„Við erum vonsvikin, reið og fyrst og fremst svekkt,“ sagði Chen Kotler, fyrirliði ísraelska kvennalandsliðsins við dagblaðið Israel Hayom.
Íslenska karlalandsliðið er í deild númer 2 eins og Ísrael. Liðin áttu að mætast í lok apríl. Önnur lið í deildinni eru Serbía, Króatía, Ástralía og Sameinuðu arabísku furstadæmin.