Bandaríski leikarinn Keanu Reeves hefur glatt aðdáendur sína, en leikarinn tilkynnti nýlega að hann hyggist reyna fyrir sér á nýjum starfsvettvangi. Þann 23. júlí kemur frumraun hans á ritvellinum út, The Book of Elsewhere, en meðhöfundur hans er breski rithöfundurinn China Miéville.
The Book of Elsewhere segir frá ódauðlegum kappa sem eyðir árþúsundum í að reyna að skilja eigin ódauðleika. Bókin byggir á heimi teiknimyndasagna um karakter Reeves, BRZRKR, sem kom fyrst út árið 2021 með rithöfundinum Matt Kindt og listamanninum Ron Garney.
„China gerði nákvæmlega það sem ég var að vonast eftir, hann kom inn með skýra uppbyggingu fyrir söguna og hvernig hann vildi spila með heim BRZRKR, heim sem ég elska svo mikið,“ sagði Reeves við The Guardian. „Ég var himinlifandi með sýn hans og finnst heiður að vera hluti af þessu samstarfsferli.“
Ritstíl breska höfundarins hefur verið lýst sem „nýjum undarlegum skáldskap“ með skáldsögum hans sem spanna nokkur þemu, allt frá amerískum vestra til spæjara í noir stíl. Skáldsagnarstíll China tengist vel teiknimyndasögum leikarans, sem segja frá Berzerker, ódauðlegum blendingi Guðs og manns, sem beitir ofbeldi óspart sem hefur áhrif á andlega heilsu hans. Berzerker ræður sig til starfa hjá bandarískum stjórnvöldum til að reyna að komast að hinu sanna um líf sitt. Þegar hefur verið gefið út að sagan um Berzerker verður að Netflix þáttaseríu.
China segir það „heiður, áfall og unun“ að Reeves hafi leitað til hans sem meðhöfundar. Útgáfustjóri bókarinnar lýsir samstarfi Reeves og China sem „draumaskrifasamstarfi“.
Segir hann þá báða vera „sagnameistara sem hafa hrifið, komið á óvart og unnið hjörtu“ áhorfenda um allan heim. Reeves hefur áður lýst myndasöguseríunni BRZRKR sem skoðun á ofbeldi, þar sem kannað er hvernig ofbeldi er beitt og stjórnað.
„Við erum að skoða ofbeldi og hvernig því er beitt, og hvernig reynt er að stjórna því,“ sagði Reeves við People árið 2021. „Og að reyna að skilja persónuna sem við gætum ekki tengst, að vera ódauðlegur, en við tengjumst hugmyndinni um að vilja vera ódauðleg. Við höfum vampírusögur sem fjalla um það sama.“