Persónuvernd hefur úrskurðað að uppflettingar konu, sem er í stjórnunarstarfi hjá Lyfjaveri, á lyfjaupplýsingum um nágranna konunnar, hjón sem hún stóð í miklum deilum við, hafi verið andstæðar ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónupplýsinga.
Hjónin fengu staðfest hjá embætti Landlæknis að konan hefði flett upp kennitölum þeirra í lyfjagagnagrunni samtals 15 sinnum frá árunum 2018 og 2019 án heimildar. Engin málefnaleg rök voru fyrir uppflettingum konunnar.
Konan viðurkenndi athæfi sitt í svarbréfi til Persónuverndar og lýsti því sem gáleysislegum mistökum sem hún sjái mikið eftir. Segist hún hafa átt í deilum um nokkurra ára skeið við fólkið og hafi um tíma óttast um eigin hag og fjölskyldu sinnar. Uppflettingarnar megi rekja til geðshræringar og undirliggjandi ótta um hvort eitthvað gæfi tilefni til að óttast háttsemi nágrannana. Einnig hafi spilað inn í sorg vegna sonarmissis. Lyfjastofnun taldi þessar skýringar vera engan veginn fullnægjandi.
Megintilefni ósættisins voru óleyfisframkvæmdir konunnar á lóðamörkum sem nágrannarnir voru ósáttir við.
Konunni hefur ekki verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu þrátt fyrir athæfið. Í svarbréfi við erindi Lyfjastofnunar viðurkennir framkvæmdastjóri Lyfjavers að uppflettingar sem koma ekki við starfsemi apóteksins eigi alls ekki rétt á sér og hafi verið skerpt á reglum um uppflettingar hjá fyrirtækinu vegna atviksins.
Í bréfi Lyfjastofnunar til fyrirtækisins segir að skýringar konunnar á uppflettingunum um nágranna sína séu ekki fullnægjandi og viðunandi því hún hafa flett upp oft yfir langt tímabil.
Hjónin telja skýringar konunnar á uppflettingunum vera fráleitar og hafa kært málið til lögreglu. Konan neitar því að hafa deilt upplýsingunum með öðrum. Hjónin benda hins vegar á að með uppflettingunum hafi konan komist að mjög viðkvæmum persónuupplýsingum um þau og engan veginn sé staðfest eða tryggt að hún hafi ekki deilt þeim með öðrum.
DV sendi fyrirspurn vegna málsins til framkvæmdastjóra Lyfjavers, Hákons Sveinssonar. Var spurt hvort úrskurður Persónuverndar hafi áhrif á stöðu konunnar innan fyrirtækisins. Enn fremur var spurt hvort fyrirtækið hafi tryggt að athæfi af þessu tagi endurtaki sig ekki.
Hákon segir að brugðist hafi verið við brotinu með tiltali en skerpt hafi verið á reglum og í dag leiði brot af þessu tagi til uppsagnar. Hákon heldur því fram að konan hafi haldið trúnað varðandi upplýsingarnar en erfitt er að sjá að það sé hægt að staðfesta. Hákon segist harma atvikið mjög en svar hans við fyrirspurninni er eftirfarandi:
„Það er rétt að við þurftum að taka á þessu máli á sínum tíma, árið 2021. Viðkomandi starfsmaður hafði í heimildarleysi flett upp einstaklingi í lyfseðlagátt i en haldið trúnaðarákvæðið. Eftir að málið kom upp voru aðgangsstýringar að uppflettingum í lyfseðlagátt hertar og starfsmaðurinn fékk tiltal vegna þessa. Í framhaldinu hefur verið gerð breyting á tölvukerfi þannig að allar uppflettingar í lyfseðlagátt eru auðkenndar á starfsmenn sem er mjög mikilvægur þáttur í að koma í veg fyrir slíkar uppflettingar sem og að rekja megi mögulegar uppflettingar sem hafa átt sér stað. Þá voru gerðar breytingar á yfirlýsingu um þagnarskyldu sem undirrituð er við ráðningu og bætt við ákvæði um aðgang að persónuupplýsingum og það gert alveg ljóst að brot á yfirlýsingunni geti varðað uppsögn. Ítarlega er farið í gegnum mikilvægi þagnarskyldunnar og heimildir til uppflettinga, sér í lagi í lyfseðlagátt, með starfsfólki. Trúnaður með þær viðkvæmu persónuupplýsingar sem starfsfólk apóteka vinna daglega með er einn af lykilþáttum í starfinu. Mikil áhersla er lögð á þann trúnað við starfsmenn Lyfjavers.
Umrætt atvik átti sér stað fyrir mörgum árum. Um það leiti þegar núverandi persónuverndarlög tóku gildi og fyrir gildistöku núverandi lyfjalaga sem taka sérstaklega á slíkum uppflettingum. Starfsmaður lét sjálfur af uppflettingum löngu áður en skoðun á málinu var gerð og sýndi jafnframt iðrun og fékk enda líka tiltal. Mikilvægur þáttur er einnig að starfsmaður deildi ekki trúnaðarupplýsingum hafi þær verið til staðar. Það réttlætir þó ekki á neinn hátt óheimilar uppflettingar.
Ég harma að þetta mál hafi komið upp. Því miður er þetta mál þó ekki einsdæmi hér á landi, eins og kom fram í fréttum á síðasta ári. Jafnframt fagna ég því að eftir umræðu um slík atvik voru opinberar kröfur um notkun lyfseðlagáttar hertar og skýr krafa sett fram um rafræna auðkenningu allra uppflettinga í lyfseðlagátt. Nú eru allar uppflettingar í lyfseðlagátt auðkenndar starfsmönnum og aðgengilegar Embætti landlæknis og það ætti að vera öllum sem starfa í apótekum ljóst að brot á þagnarskyldu og heimildarlaus uppfletting getur í dag leitt til fyrirvaralausrar uppsagnar.“