Þann 12. júní árið 2023 var kveðinn upp við Héraðsdóm Suðurlands dómur í mjög alvarlegu kynferðisbrotamáli. Dómurinn hefur hins vegar aldrei verið birtur og ekki nema þeir sem gerst til þekkja vita hvort sakborningurinn var sakfelldur eða sýknaður.
Málið var þingfest 2. febrúar 2023 en lokað þinghald í aðalmeðferð var í málinu þann 17. apríl. Dómur féll síðan 12. júní, sem fyrr segir, en um þetta vitna færslur í dagskrá dómstólsins á vefsíðu dómstólanna.
DV fékk nafn- og staðreyndahreinsaða ákæru í málinu í hendur og greindi frá því þann 21. mars 2023. Þar segir:
„Þann 17. apríl næstkomandi verður aðalmeðferð við Héraðsdóm Suðurlands í máli gegn manni sem sakaður er um mjög alvarleg kynferðisbrot gegn barni.
DV hefur ákæru héraðssaksóknara í málinu undir höndum en úr henni hafa verið hreinsaðar upplýsingar á borð við nöfn, staðsetningu, aldur og tímabil meintra brota. Meint brot mannsins gagnvart stúlkubarni ná, samkvæmt ákærunni, yfir ótilgreindan árafjölda og er ljóst að um margítrekuð brot er að ræða.
Ákæruliðirnir eru þrír og í fyrsta ákærulið er maðurinn sakaður um nauðgun og kynferðisbrot gegn barni. „…ákærði stakk ítrekað fingri inn í kynfæri og rass hennar og káfaði ítrekað utan- og innanklæða á kynfærum, brjóstum og rassi hennar og snerti kynfæri hennar með kynlífshjálpartækjum,“ segir í ákæru.
Í öðrum ákærulið er maðurinn sakaður um kynferðisbrot gegn barni, en til vara brot gegn blygðunarsemi og barnaverndarbrot með því að hafa um ótilgreint árabil sýnt barninu klámfengið myndefni og netsíður sem sýna slíkt efni, „…en með háttsemi sinni særði ákærði blygðunarsemi hennar og sýndi henni ósiðlegt athæfi.“
Í þriðja lagi er maðurinn ákærður fyrir að hafa haft undir höndum sex myndskeið og þrjár ljósmyndir sem sýna kynferðislega misnotkun á börnum. Var efnið á hörðum disk af gerðinni Segate Expansion, segir í ákæru.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Fyrir hönd stúlkunnar er krafist miskabóta að fjárhæð 3,5 milljónir króna. Einnig er gerð krafa um greiðslu þóknunar vegna réttargæslu stúlkunnar.“
DV hefur sent fyrirspurn á Héraðsdóm Suðurlands vegna málsins, spurt hvers vegna dómurinn hafi ekki verið birtur og óskað þess að fá hann í hendur. Fyrirspurninni hefur ekki verið svarað.
DV hefur fengið dóminn í hendur frá Héraðsdómi Suðurlands og verður nánar fjallað um málið á næstunni.