Sterkasta sveitakeppni sem haldin hefur verið í hugaríþróttinni bridge hér á landi fer fram 22.-25 janúar næstkomandi.
Von er á fjölmörgum af skærustu stjörnum alheims í spilinu. Mótið nefnist WBT Masters Reykjavík 2024 og verður keppnin sú fyrsta í röð alþjóðlegra ofurmóta sem fara fram víða um heim.
Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Bridgesambands Íslands, segir erfitt að nefna eina stjörnu umfram aðra í keppendahópnum. Flestir gestanna séu meðal þekktustu briddsmeistara heims. Nefna má Norðmanninn Boye Brogeland og Sabine Auken.
Tvær íslenskar sveitir taka þátt, önnur þeirra að mestu skipuð landsliðsspilurum.
Mikil eftirvænting er fyrir mótið að sögn Matthíasar. Spilað verður í Hörpu. Verðlaunafé nemur 4,6 milljónum króna.
Áhugi á bridge hefur undanfarið tekið sögulegan kipp hér á landi. Fjöldi nýrra iðkenda slær öll met. Hvert nýliðanámskeið sem Bridgesamband Íslands hefur hleypt af stokkunum undanfarið fullestið. Matthías segir sérlega gaman að halda mótið á tímum vakningar í hugaríþróttinni.
Skammt er stórra högga á milli, því strax eftir ofurmótið fer stórmótið Reykjavík Open fram í Hörpu og stefnir í fjölmennasta mót sem farið hefur fram hérlendis. Enn er þó hægt að bæta pörum við. Gera má ráð fyrir að 700-800 keppnisspilarar berjist á Reykjavík Open um fé, heiður og frama, bæði í tvímenningi og sveitakeppni.