Eriksson er 75 ára og hefur komið víða við á ferli sínum í þjálfun. Hann vann Evrópukeppni félagsliða með IFK Gautaborg árið 1981 og gerði Benfica svo að meisturum í Portúgl í kjölfarið.
Þá vann hann ítalska bikarinn með Roma og Sampdoria áður en hann gerði Lazio að Ítalíumeisturum árið 2000. Hann varð landsliðsþjálfari Englands árið 2001 og þjálfaði liðið til 2006. Hann hætti í þjálfun árið 2019 eftir að hafa starfað í Kína og Filippseyjum.
Þjálfarinn góðkunni greindi frá því í viðtali við P1-útvarpsstöðina í Svíþjóð að hann hafi greinst með krabbamein á síðasta ári. Um sé að ræða alvarleg veikindi sem hann ætlar þó að berjast við af fullum krafti. Segist hann kannski í besta falli eiga eitt ár eftir ólifað en í versta falli eitthvað minna.
„En það er ekki hægt að vera viss. Það er betra að hugsa ekki um það.“
Svíinn sagði að krabbameinið hefði uppgötvast eftir að hann hneig niður þegar hann var úti að hlaupa.
„Þeir vita ekki hversu lengi ég var þá búinn að vera með meinið, kannski mánuð en kannski ár,“ segir hann.