Sky News segir að hann hafi skrifað undir samning um að fá 40.000 pund fyrir að skýra frá örlögum hennar og hefði sú upphæð dugað til að bjarga honum úr viðjum fátæktar. En hann skipti um skoðun og hafnaði greiðslunni og sagði fjölskyldunni frá örlögum Muriel.
Hosein, sem er frá Trinidad, og bróðir hans námu Muriel á brott 1969 og héldu henni fanginni á sveitabýli í Hertforshire. Þeir kröfðust þess að fá eina milljón punda í lausnargjald fyrir hana. En eftir því sem Hosein segir þá lést Muriel af völdum hjartaáfalls um jólin.
Hann hefur boðist til að snúa aftur til Bretlands til að sýna dóttur Muriel og dóttursyni hennar hvar lík hennar var grafið. Hosein var vísað úr landi í Bretlandi 1990 eftir að hafa fengið lausn úr fangelsi eftir að hafa afplánað hluta af ævilöngum dómi.
Muriel var 55 ára eiginkona Alick McKay, sem var næstráðandi hjá fjölmiðlaveldi Rupert Murdoch. Hosein og bróðir hans töldu hana ranglega vera fyrstu eiginkonu Murdoch og námu hana á brott í von um að geta fengið lausnargjald greitt.
Eftir margra daga kattar og mús leik við lögregluna og misheppnaða tilraun til að sækja ferðatösku fulla af peningum, lausnargjaldið, voru bræðurnir handteknir á sveitabýlinu. En þar voru engin ummerki um Muriel og þeir vildu ekki segja hvað hafði orðið um hana.
Þeir voru báðir dæmdir í ævilangt fangelsi fyrir að hafa myrt Muriel. Eins og fyrr sagði var Hosein látinn laus 1990 en bróðir hans, Arthur Hosein, lést í fangelsi árið 2009.