Lík Vilhelm fannst í vinnuherberginu og var teppi breytt yfir það. Ofan á teppinu var stóll sem búið var að taka bakið af og einn fótinn. Undir hægri hönd hans var blóðugur hnífur, sem hjónin áttu. Skorið hafði verið í hægri úlnlið hans alveg inn að beini. Yfir höfuð hans hafði göngustafur verið lagður en hann hafði verið í eigu tengdaföður Vilhelm. Um háls hans voru tvö handklæði bundin og í munninum var upprúllaður kvenmannssokkur. Frá hálsi og niður að hægri handlegg hafði ljósblátt teppi verið breytt. Undir líkinu var koddi og undir honum túlípanavöndur. Við vinstri hlið líksins var borðlampi og var búið að klippa rafleiðsluna af. Nærri líkinu voru gyllt gleraugu, glerin voru brotin, og fleiri brotin gler úr gleraugum. Mikið blóð hafði sprautast um allt herbergið. Lík Inger fannst í svefnherberginu. Það var á maganum og vísaði höfuðið að dyrunum. Undir líkinu hafði kodda verið komið fyrir sem og teppi. Yfir líkið höfðu tvær yfirdýnur úr rúminu verið lagðar. Yfir vinstri öxl og niður eftir bakinu lá blóðugt handklæði. Höfuðið var útatað í blóði. Göngustafur lá yfir líkinu, hann hafði verið í eigu móður hennar.
Meiri dulúð
Í einu herberginu fundust gervitennur í hillu yfir ofninum, eyrnalokkar og tvær greiður. Þessu var raðað nákvæmlega upp hlið við hlið og voru munirnir útataðir í blóði. Allt tilheyrði þetta Inger. Stór blóðpollur var líka í herberginu. Gardínur höfðu verið dregnar fyrir í herbergjunum og af sumum höfðu snúrurnar verið skornar af. Rafleiðslur höfðu verið klipptar í sundur, meira að segja bak við stórar og þungar kommóður. Einnig var búið að færa nokkrar litlar styttur til. Að öðru leyti var íbúðin ótrúlega ósnert og nær engin verðmæti höfðu verið tekin þrátt fyrir að hjónin ættu mikið af verðmætum antíkhlutum og skartgripum. Það vantaði þó tvær ávísanir úr ávísanahefti. Á minnisblaði við aðra ávísunina stóð: „19/2 1948 – 8.500 – ég“. Þetta var ávísun númer 51. Ekkert stóð við ávísun númer 52 sem var mjög sérstakt því Vilhelm var mjög nákvæmur með að skrifa inn í ávísanaheftið. Ávísanirnar fundust aldrei og voru ekki innleystar.
Sérfræðingar komust að þeirri niðurstöðu að lampinn sem lá við hlið Vilhelm og stólinn, sem var ofan á honum, gætu hafa verið notaðir til að myrða hjónin því bæði höfðu þau látist af völdum mikilla höfuðáverka. Ólíklegt var að göngustafirnir hefðu verið notaðir því þeir voru svo mjóir og léttir.
Rannsóknin
Lögreglan lokaði íbúðinni og lögregluvörður var settur um hana um leið og líkin fundust. Enginn óviðkomandi átti að fá aðgang að henni en nokkrir „óviðkomandi“ fengu þó aðgang. Þar á meðal Johan G. Parker, lögreglustjóri, en skófar hans fannst í blóðpolli á gólfinu. Erik Ramdahl, náin vinur hjónanna, fékk einnig aðgang en hann sagðist hafa frétt af morðinu hjá konu sinni og hafi því komið á vettvang en vinnustaður hans var ekki fjarri.
Íbúar í stigaganginum voru yfirheyrðir sem og aðrir nágrannar. Áhugaverðasti vitnisburðurinn kom frá fröken Jensen, ráðskonu hjá íbúa í íbúðinni fyrir neðan íbúð hjónanna, en hún hafði heyrt marga háværa dynki og þung hljóð, eins og eitthvað drægist eftir gólfinu, berast frá íbúð þeirra hjóna. Hún hélt að þau væru að færa húsgögn og hugsaði ekki meira út í þetta. Nær fullvíst má telja að hún hafi heyrt hljóðin frá morðunum.
Grafist var fyrir um samband þeirra hjóna og persónulegar aðstæður þeirra út á við. Hjónin höfðu lifað hæglátu lífi að mestu og ekki var að sjá að þau hefðu verið ósátt við hvort annað. Þau umgengust lítinn hóp vina og líf þeirra var í föstum skorðum. En sú spurning vaknaði hvort allt væri virkilega eins slétt og fellt og það virtist á yfirborðinu. Fögur mynd hafði verið dregin upp af hjónunum og lífi þeirra, ekki var annað að sjá en allt hefði verið í góðu lagi, þar á meðal kynlífið. En eftir því sem rannsókninni miðaði áfram komu sprungur í sumar af þessum fögru myndum. Vilhelm var lýst sem hæglátum manni sem hafði eiginlega bara áhuga á hestaíþróttum. Hann lét lítið fyrir sér fara út á við og lét Inger að mestu sjá um samskipti þeirra út á við. Hún var sögð ráðrík og stjórnsöm og mjög sjálfselsk. Hún var ófeimin við að segja öðrum frá kynlífi þeirra hjóna og daðraði óhikað við aðra menn. Var hugsanlegt að hún hefði átt elskhuga sem hefði myrt þau?
Eða var það kannski eitthvað sem hafði gerst í síðari heimsstyrjöldinni sem varð til þess að þau voru myrt? Vinnustaður Vilhelm, English House, hafði framleitt einkennisfatnað fyrir Þjóðverja í stríðinu. Þetta hafði gert fyrirtækið óvinsælt hjá dönsku andspyrnuhreyfingunni og hefði átt að leiða til ákæru fyrir föðurlandssvik að stríði loknu. Vilhelm var háttsettur í fyrirtækinu en hótanir gegn því beindust ekki að honum heldur eiganda þess. Kenning kom fram um að Vilhelm hefði kannski verið persónulega tengdur ýmsum vafasömu á stríðsárunum því einn af þekktustu böðlum andspyrnuhreyfingarinnar var fljótlega nefndur til sögunnar sem hugsanlegur morðingi. Hann hét Sven Aaage Geisler, þekktur sem Stóri-Björn, og taldi leigubílstjóri sig hafa séð hann utan við heimili hjónanna daginn sem þau voru myrt. Stóri-Björn hafði drepið marga á stríðsárunum, í samvinnu við félaga sinn Litla-Björn, þar á meðal grænmetissala sem var með verslun í húsinu sem Vilhelm og Inger bjuggu í. Lögreglan velti því fyrir sér hvort hann hefði verið að verki og hefði verið að gera upp gamlar skuldir frá stríðsárunum. Hann var yfirheyrður en hafði fjarvistarsönnun. Hafði verið með Mogens Hansen, sem einnig var í andspyrnuhreyfingunni, en lögreglan trúði Mogens ekki alveg vegna gamallar vináttu þeirra og þess að Sven Aage hafði eitt sinn bjargað lífi hans. En engar sannanir fundust fyrir aðild Sven Aage að morðinu. Hann var síðan myrtur árið 1968 á götu úti.
Heimilisvinurinn
Rannsókn málsins hélt áfram næstu árin og síðar var rannsóknarnefnd sett á laggirnar en það varð ekki til að málið leystist. 1954 áttaði einn rannsakendanna sig á að fjarvistarsönnun heimilisvinarins Erik Ramdahl hafði aldrei verið könnuð frekar. Gat verið að hann hefði átt í ástarsambandi við Inger og því myrt hjónin? Hann hafði sagt lögreglunni að hann hefði byrjað daginn á skrifstofu sinni en hefði síðan farið heim að vinnu lokinni og verið með eiginkonu sinni þar til þau fóru í heimsókn á nálægt barnaheimili klukkan 16.40. Hann hafði boðað forföll í tónlistarfélagið sitt þennan dag vegna vanlíðanar en hann var vanur að mæta þangað á hverjum fimmtudegi. En það voru sex ár síðan þetta gerðist en samt sem áður varð að kanna hvort þessi frásögn hans stæðist. Eiginkonan mundi ekki nákvæmleg eftir þessum degi en sagði lögreglunni hvernig fimmtudögum hefði venjulega verið varið. Hjá tónlistarfélaginu fékkst staðfest að Erik hefði ekki mætt umræddan dag en á barnaheimilinu fengust engar upplýsingar.
Eitt og annað benti til að Erik gæti hafa verið að verki. Morðaðferðin gat bent til að morðinginn hefði þekkt hjónin. Lögreglan taldi að Inger hefði verið meðvitundarlaus eða látin þegar Vilhelm kom heim. Morðinginn hafði því haft ástæðu til að koma í íbúðina. Erik hafði ástæðu til þess sem vinur þeirra hjóna. Auk þess átti hann erfitt með gang sem þýddi að þegar hann gekk heyrðist hljóð eins og eitthvað drægist eftir gólfinu. Lögreglan hafði því margar vísbendingar sem bentu til að Erik hefði verið að verki en engar sannanir. Erik var yfirheyrður en þverneitaði að hafa myrt hjónin og sagði slæmt að lögreglan hefði ekki kannað fjarvistarsönnun hans strax árið 1948.
Óleyst
Enn hvílir mikil dulúð yfir morðunum og hver myrti hjónin fyrir 72 árum. Líklegt má teljast að málið verði aldrei upplýst en margar kenningar hafa verið settar fram um það í gegnum tíðina og bækur skrifaðar um það. Svo spurningunni um hver eða hverjir myrtu hjónin á hrottalegan hátt verður líklegast aldrei svarað. Var morðinginn í vinahópi þeirra hjóna, leynilegur elskhugi eða bjuggu Vilhelm eða Inger yfir vitneskju sem varð til þess að þau voru myrt?