Ekki var að sjá að dómurinn hefði mikil áhrif á Monique en um ævilangan dóm er að ræða vegna alvarleika brotanna. Hún getur sótt um reynslulausn eftir 20 ár. Miðað við að hún er orðin 75 ára má reikna með að hún muni dvelja í fangelsi það sem hún á eftir ólifað. Þess utan afplánar hún nú þegar dóm fyrir aðild að öðrum morðum sem Michel var fundinn sekur um.
Dómarinn, Didier Safar, fann hana seka um að hafa tekið þátt í frelsissviptingu og morðum á Joanna Parrish, 20 ára, Marie Angele Domece, 18 ára, og Estelle Mouzin, 9 ára. Lík Estelle hefur ekki fundist.
Michel, sem nú er látinn, játaði að hafa myrt ellefu stúlkur og konur en lögreglan telur að fórnarlömb hans hafi verið mun fleiri, allt að 25.
Michel lést í fangelsi árið 2021, áður en hægt var að kveða upp dóm yfir honum vegna málanna sem Monique var dæmd fyrir í síðustu viku. Þau voru framin á árunum 1988 til 2003.
Monique aðstoðaði Michel við morðin. Hún sannfærði fórnarlömbin um að það væri óhætt að setjast upp í bíl með Michel. Sluppu fórnarlömbin ekki lifandi úr klóm Michel. Michel nauðgaði flestum fórnarlömbunum áður en hann skaut þau, kyrkti eða stakk til bana.