Bandaríska fyrirsætan og hjólabrettakappinn Brooklinn Khoury, 24 ára, hefur gengist undir fjölda aðgerða á andliti eftir að hundur af tegundinni pit bull réðst á hana og beit af henni efri vörina í nóvember 2020. Hluti af nefi hennar eyðilagðist einnig í árásinni.
Khoury segir að árásin og afleiðingar hennar hafi breytt hugmynd hennar um fegurð og hún sé þakklát fyrir stuðninginn frá sínum nánustu.
„Fjölskylda mín og vinir mínir eru í lífi mínu af ástæðu, til að hjálpa mér að sjá að það er svo miklu meira á bak við yfirborðskennt útlit,“ sagði hún í samtali við Good Morning America og bætti við að hún hefur lært að elska sjálfa sig á ný.
Khoury var heima hjá frænku sinni í nóvember 2020 þegar árásinn átti sér stað. Hún hafði oft áður hitt umræddan hund og var ekkert sem benti til þess að hann væri að fara að ráðast á hana. „Ég stóð og hann var við hliðina á mér og skyndilega hoppaði hann á mig, beit í andlitið mitt og notaði allan þungann sinn til að rífa mig niður,“ sagði hún.
Hún sagði að árásin hafi verið í „góðar 30 sekúndur“ og að hundurinn hafi „hrist hana eins og tuskudúkku.“
Khoury áttaði sig ekki á hversu slæmt ástandið væri fyrr en hún kíkti í spegilinn og sá að hún „leit út eins og beinagrind.“
Það tók tíma en henni tókst að finna lýtalækni sem gat framkvæmt aðgerðina til að laga efri vör hennar og nef. Hann notaði húð á framhandlegg hennar til að móta nýja efri vör.
„Læknirinn minn lýsti mér bókstaflega sem listrænu verkefni,“ sagði hún við GMA.
„Stundum kemur eitthvað fyrir okkur og við munum aldrei skilja af hverju. En ég tek ein dag í einu og treysti ferlinu. Líka þó mér líði eins og það sé ómögulegt.“