Kona sem leigði íbúð á Airbnb fyrir sig og eiginmann sinn varð forviða eftir að leigusali íbúðarinnar skildi eftir langan lista af húsverkum fyrir hjónin, leigutaka eignarinnar.
Í myndbandi sem konan sem er kanadísk birti á TikTok segir hún að líkt og með margar íbúðir sem leigðar eru í gegnum Airbnb hafi verið þrifagjald upp á 125 dali. Mel fannst það lítið mál að greiða slíkt gjald, en það var langur listi yfir húsverkin sem hún þurfti að sinna áður en hún skilaði íbúðinni sem fór í taugarnar á henni. Telur hún að þrifgjaldið sem hún greiddi eigi að standa undir þeim kostnaði að einhver einstaklingur komi og vinni þau verk.
„Við biðjum um að gestir ljúki nokkrum heimilisstörfum fyrir brottför til að gefa okkur tíma til að undirbúa íbúðina örugglega og á réttum tíma fyrir næstu gesti. Fjarlægja sorp, taka rúmföt af rúmum, ræsa uppþvottavélina og setja þvott í vél,“ les Mel upp.
„Kannski hljóma ég eins og einhver forréttindakerling, en þegar ég er að greiða 229 dali fyrir nóttina auk 125 dala þrifagjalds, þá er ég ekki að fara að þvo þvott. Ég veit samt að þetta er bara ein vél sem mun taka mig tvær mínútur að henda í, en þetta er svona prinsipregla finnst mér.“
@melworeit$700 for two nights ≠ no chores lol
Margir skildu gremju Mel, og voru á því að þrifagjald ætti einfaldlega að vera inni í leiguverðinu.
„Hótel taka slíkt inn í sín verð og Airbnb gestgjafar þurfa að gera slíkt hið sama. Ég ferðaðist til Alaska og það var ódýrara að gista á hótelum en á Airbnb.“
Aðrir lögðu til að þeir myndu velja að gista á hóteli í stað Airbnb vegna hárra þrifagjalda.
„Öll þessi gjöld og þú þarft samt að þvo þvott og fara út með rusl? Ódýrara og þægilegra að gista á hóteli. Auk þess er herbergisþjónusta.“