Valur hefur verið að fá til sín unga leikmenn í vetur en er áfram á höttunum eftir reynslumeiri leikmönnum sem eru hátt skrifaðir.
„Við vildum fara þessa leið líka. Gera Val að áhugaverðum stað fyrir þessa ungu og efnilegu stráka. Af hverju ætti Valur ekki að vera það? Fyrir mér er þetta stærsti klúbburinn á Íslandi og klárlega einn besti klúbburinn í dag, með fyrirmyndaraðstöðu og eina liðið sem æfir eins og atvinnumenn, á morgnanna og þess háttar,“ sagði Arnar í þættinum.
„Við erum ekkert að taka U-beygju og segja að við ætlum að spila með tíu unga stráka. Við viljum vera með góða blöndu. Ef þú ætlar þér að vinna mótið verður þú að vera með ákveðna reynslu á móti.“
„Þá kemur kannski hin hliðin. Það kostar helling að reka þessi félög. Ungir og efnilegir strákar eru yfirleitt ekki dýrir og á sama tíma gætu þeir gefið tekjur áfram með því að selja þá.“
Sem fyrr segir skoðar Valur það áfram að fá meiri reynslu inn í liðið.
„Við erum enn að skoða það en markaðurinn er bara orðinn erfiður. Það eru mörg lið sem eru að berjast um leikmenn. Blikar eru orðnir mjög agressívir og Víkingar líka. Þetta eru tvö spennandi félög. Svo bara bætist við. Þú ert með KR, FH og Skagann sem er búinn að fá mikið af peningum út af sölu leikmanna.“
Aron Bjarnason, Aron Sigurðarson, Alex Þór Hauksson og Valgeir Valgeirsson hafa til að mynda verið orðaðir við Val og var Arnar spurður út í þá.
„Við höfum talað við þá alla, ég er alveg heiðarlegur með það. Svo ráðum við ekki alltaf ferðinni. Sumir eru með samninga erlendis og þá þarf að semja þar. Stundum er verðmiðinn þar töluverður.
Svo er það að gerast að menn eru að keyra hlutina svolítið upp. Það er kannski skrýtið að Valsmenn séu að kvarta og kveina. Auðvitað viljum við reyna að hækka rána en það þarf að vera innan skynsamlegra marka. Ég tel deildin ekki bera það nema við gerum risa auglýsinga- og sjónvarpssamninga, sem eru ekki í boði. Það eru ekki að koma fleiri þúsundir á völlinn svo tekjuhliðin er ekki stór. Þá ertu með óreglulegar tekjur sem eru Evrópukeppni og að selja leikmenn. Það er bæði „gamble.“ Ef menn ætla að stóla á þetta erum við á hálum ís,“ sagði Arnar að lokum um málið.