fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Sigurður bendir á óþægileg atriði varðandi þátt Tómasar í plastbarkamálinu – „Ég er að gæta hagsmuna konu sem missti manninn sinn“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 9. janúar 2024 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður G. Tómasson, lögmaður konu sem missti eiginmann sinn í plastbarkaaðgerð á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi árið 2011, gefur lítið fyrir lögfræði læknaprófessorsins Magnúsar Karls Magnússonar. Magnús, sem er náinn vinur Tómasar Guðbjartssonar skurðlæknis, kom Tómasi til varnar í aðsendri grein á Vísir.is um helgina.

Sjá einnig: Sakar fjölmiðla um persónuárásir á Tómas Guðbjartsson lækni

„Fréttaflutningur síðustu daga hefur verið óvenju óskammfeilin persónuárás með ónefndum heimildarmönnum og gróusögum og ýjað hefður verið að því að staða Tómasar á LSH væri ótrygg, þótt ekkert sé í reynd hæft í slíkum aðdróttunum,“ sagði Magnús í grein sinni. Einnig gagnrýndi hann ummæli Sigurðar G. í fjölmiðlum:

„Þá hefur lögmaður sem vinnur að málinu fyrir ekkju Andermarians og fréttamaður RÚV gefið í skyn í spjalli við kollega sinn á Rás 1 að dómur yfir Macchiarini eigi að leiða til þess að aðrir sem að aðgerðinni komu eigi að sæta lögreglurannsókn. Þetta lýsir annaðhvort saknæmum aðdróttunum þessara aðila eða fullkomnu skilningsleysi á réttarkerfinu. Dómur hefur fallið í þessu máli og hann féll að lokinni viðamikilli lögreglurannsókn í því landi þar sem brotin voru framin. Rannsóknin á málinu var til þess gerð að finna alla þá er hugsanlega eiga þar sök til að ákveða hverjir verði sakborningar og hverjir ekki. Að halda því fram að sá dómur þýði að aðrir sem þar voru til rannsóknar eigi nú að vera sakborningar í málinu hér á landi er hættuleg túlkun á því hvernig dómskerfið á að virka. Ég tel að fréttamaður sem verður uppvís að slíkum skilningi á dómskerfinu ætti að draga orð sín til baka. Á lögmönnum sem hafa þennan skilning á réttarkerfinu hef ég lítið álit og er væntanlega ekki einn um þá skoðun.“

Sigurður, sem ræddi málið við DV í morgun, gefur lítið fyrir lögfræðiþekkingu Magnúsar og segir í Facebook-færslu:

 „Læknandi lögfræði Magnúsar !

 Magnús Karl Magnússon kennari við læknadeild Háskóla Ísland hefur samkvæmt grein, sem hann birti á visir.is nýlega, fengið þá uppfræðslu í lögfræði að refsilaust sé fyrir Íslendinga að taka þátt í eða fremja afbrot í útlöndum og koma svo heim og þá sé allt búið og ekkert hægt að gera hér á landi vegna brotsins.

 Þó lögfræði sé einföld fræðigrein er hún ekki alveg eins einföld og Magnús Karl læknauppfræðandi gefur í skyn í skrifum sínum til varnar vini; vini sem tók virkan þátt fyrstu plastbarkaaðgerðinni 9. júní 2011, sem tilvísunarlæknir og hinn ábyrgi læknir samkvæmt samningi Sjúkratrygginga Íslands við Karólínska sjúkrahúsið frá byrjun júní 2011.

 Við lestur skrifa læknadeildar kennarans kemur upp í hugann vísa Stephans G. Stephanssonar.

Löngum var ég læknir minn /lögfræðingur, prestur,/smiður, kóngur. kennarinn /kerra, plógur, hestur.“

„Refsilögsaga yfir brotum Íslendinga erlendis er á Íslandi, eins og við þekkjum með mál Jóns Baldvins, þar sem hann átti að hafa strokið rassinn á konunni á Spáni en réttað var yfir honum á Íslandi. Þá fer það eftir því hvort háttsemin er refsiverð í því landi þar sem brotið er framið. Ef brot er framið í Svíþjóð og það er búið að refsa einum í Svíþjóð, þá getur verið tilefni til rannsóknar á aðkomu Íslendinga gagnvart Íslendingi þar sem refsilögsaga er íslenska ríkisins,“ segir Sigurður.

En telur hann að sækja eigi Tómas til saka?

„Ég er alls ekki að halda því fram að það eigi að gera. Ég er bara að sækjast eftir bótum fyrir aðstandendur sjúklingsins, en ég er að benda lækninum á að þó að lögfræði sé einföld þá er hún ekki svo einföld að þó að búið sé að leysa úr refsiþætti eins aðila í útlöndum þá sé það ótækt að gera slíkt á Íslandi.“

Snýst ekki bara um einhvern klikkaðan lækni í Svíþjóð

Andemariam Beyene var frá Eritreu en var búsettur á Íslandi. Hann greindist með krabbamein í barka árið 2009 en árið 2011 fór hann til Svíþjóðar þar sem græddur var í hann plastbarki á Karólinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Var þetta fyrsta slíka aðgerðin í heiminum en Eritríumaðurinn lést vegna aðgerðarinnar. Sá sem framkvæmdi hana var ítalski læknirinn Paolo Macchiarini. Hann hefur nú verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir alvarleg afglöp í starfi.

Tómas Guðbjartsson tók þátt í aðgerðinni sem íslenskur læknir mannsins.

Aðspurður segir Sigurður að ekki sé búið að ákveða fjárhæð bótakröfu en búið að setja fram beiðni um viðræður um bætur. Hann ræðir Tómasar og Landspítalans í málinu:

„Það er svolítið athyglisvert að menn eru alltaf að tala um að þetta sé bara sænskt mál, sem það sannarlega er, Karolinska sjúkrahúsið ber auðvitað ríka ábyrgð, þess vegna hef ég sagt við aðila hér á landi, viljið þið ekki ræða við Karólinska hvort þið séuð tilbúin að bæta þetta sameiginlega, sem er ekki ólógískt í ljósi þess að Karólínska átti að fá 700 þúsund sænskar krónur ef markmiðið með meðferðinni næðist ekki að fullu, en 1,2 milljónir sænskar ef markmið næðist. Hvað var þá borgað?“

Sigurður segir ennfremur:

„Þetta er íslenskur sjúklingur og það þarf að leita út fyrir landsteinana til að tryggja honum viðurkennda læknismeðferð og það er alveg ljóst að menn eru að tala um viðurkennda læknismeðferð á þeim tíma. Það er tekið sérstaklega fram að íslenski meðferðarlæknirinn, sem var Tómas, á að koma að öllum þáttum meðferðarinnar og töku ákvarðana. Hann var tilvísunarlæknirinn og var sá sem borgað var undir til Svíþjóðar. Síðan átti að flytja sjúklinginn til Íslands og hér átti eftirmeðferðin að vera og ef eitthvað kom upp þá þurfti að greina á milli hver átti að borga fyrir það, Karólinska eða Sjúkratryggingar Íslands. En Sjúkratryggingar voru alltaf að segja við Tómas að þær væru ekki að fara að heimila einhverja tilraunaaðgerð, að það megi bara borga fyrir læknisfræðilega viðurkenndar aðgerðir.“

Sigurður segist finna til með Tómasi en hans hlutverk sé að gæta hagsmuna ekkjunnar:

„Ég auðvitað vorkenni Tómasi að vera í þessari stöðu en ég er að gæta hagsmuna konu sem missti manninn sinn. Mann sem var með krabbamein en það var staðbundið krabbamein, hann var ekki dauðvona. Maður sem fór bara í venjulegu flugi til Stokkhólms og hitti vini sína frá Eritreu áður en hann undirgekkst þessa aðgerð. Að hlusta á Magnús Karl halda því fram að settar hafi verið frumur á plastbakka í einhverri rannsóknastofu, það hefði kannski átt að vekja athygli manna að þarna var um að ræða að setja plast í mann sem búið var að baða upp úr einhverjum stofnfrumum í tvo sólarhringa. Ég efast um að þú gætir fundið lækni sem væri til í að skrifa upp á að þetta hefði talist vera vísindalega sannað.“

Sigurður segist hafa slæma reynslu af samskiptum við Landspítalann í tengslum við læknamistök:

„Í öðru máli sem ég var með var ríkið dæmt bótaskylt fyrir að maður var drepinn í skurðaðgerð. Það var mjög erfitt að eiga við Landspítalann varðandi það að fá gögn. Samtryggingin er mikil og ég þurfti að fá lækna sem aldrei höfðu starfað á Íslandi sem matsmenn í því máli.“

Sigurður segir að það sem upp úr standi og sé núna aðlatriðið í málinu sé bótaskyldan:

„Ég held að núna snúist allt um að menn girði sig í brók og bæti ekkjunni þetta. Ég held að allir hljóti að vera sammála um það. En hvers virði er mannslíf? Það er spurningin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!