Í dag, 9. janúar, hefði Ibrahim Shah Uz-Zaman, drengurinn sem lést í hræðilegu slysi á Ásvöllum þann 30. október síðastliðinn, orðið níu ára. Í tilefni afmælisdags hans verða uppáhaldsréttir hans á veitingastaðnum Shalimar í Austurstræti á afmælistilboði og er fólk hvatt til að minnast Ibrahim með fjölskyldu hans á pakistanska veitingastaðnum í miðbæ Reykjavíkur.
„Við bjóðum ykkur að fagna afmæli elsku Ibrahims sem hefði orðið níu ára,“ segir í tilkynningu frá Shalimar, en fjölskylda hans hefur rekið veitingastaðinn í um þrjátíu ár.
Greint er frá á Facebook síðu-veitingastaðarins og á minningarsíðu Ibrahims á Facebook. Réttirnir sem voru uppáhalds réttir Ibrahims eru Tandoori kjúklingur, Tikka Masala kjúklingur og grænmetis karrí. Réttirnir verða allir seldir á 999 krónur fyrir þá sem koma og sækja.
Á minningarsíðu Ibrahims kemur fram að fjölskylda hans sé að stofna minningarsjóðinn „Það er ég!“ Sjóðinn á að nýta til að auka öryggi barna í umferðinni og fleiri verkefni til að koma boðskap Ibrahims á framfæri og heiðra minningu hans um ókomna tíð.