Mikill áhugi hefur verið á málum tengdum óþekktum fljúgandi hlutum síðustu mánuði í kjölfar þess að David Grusch, fyrrum starfsmaður þeirrar deildar bandaríska varnarmálaráðuneytisins sem rannsakar mál tengd óþekktum fljúgandi hlutum, gerðist uppljóstrari og sagði að bandarísk stjórnvöld séu með geimför frá öðrum plánetum í sinni vörslu. Sé þar um bæði heil geimför að ræða og skemmd.
Í kjölfar uppljóstrana hans fóru yfirheyrslur fram fyrir þingnefnd og báru Grusch og tveir aðrir aðilar vitni fyrir nefndinni og skýrðu frá reynslu sinni og vitneskju um óþekkta fljúgandi hluti.
Ryan Graves, fyrrum orustuflugmaður hjá bandaríska sjóhernum, sagði að óþekktir fljúgandi hlutir séu „opinbert leyndarmál“ meðal orustuflugmanna. Hann skýrði frá reynslu annars orustuflugmanns sem þurfti að forða árekstri við „dökkgráan kassa sem var inni í glæru hylki“ sem var hreyfingarlaus í loftinu þrátt fyrir vind.
David Fravor, fyrrum yfirmaður í sjóhernum, sagði frá hinum fræga „Tic Tac“ fljúgandi furðuhlut. Þetta var lítill hvítur hlutur sem þaut framhjá herflugvél og kom fram á ratsjá í um 100 km fjarlægð nokkrum sekúndum síðar.
Grusch sagði nefndinni að fólki hafi verið unnið „mein eða slasað“ til að leyna upplýsingum um geimförin.
Hann kom nýlega fram í hlaðvarpinu „Joe Rogan Experience“ og sagði að bandarísk yfirvöld hafi fundið „að minnsta kosti tíu“ lík geimvera í geimförum sem brotlentu.
Í skýrslu sem bandaríska geimferðastofnunin NASA birti á síðasta ári kemur fram að engar sannanir hafi fundist fyrir því að óþekktir fljúgandi hlutir séu frá öðrum plánetum.