Framkvæmdastjóri Lyngby, segir það algjöra þvælu sem kemur fram í Viðskiptablaðinu um laun Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá félaginu.
Viðskiptablaðið sagði að Gylfi væri með 50 milljónir króna í árslaun hjá Lyngby en hann gerði eins árs samning við félagið síðasta haust.
„Við ræðum aldrei laun leikmanna eða hjá starfsmönnum hjá félaginu. Ég get þó sagt frá því að Gylfi þénar ekki nálægt þeirri upphæð sem kemur fram á Íslandi,“ sagði Andreas Byder, framkvæmdarstjóri félagsins.
„Gylfi er í sama launaflokki og leikmenn Lyngby, hann tók þau laun sem við getum boðið. Við leggjum meira upp úr samfélaginu og umgjörð í gegnum æfingar. Það er langt frá því að Gylfi þéni 50 milljónir króna á ári.“
Gylfi hefur verið meiddur síðustu vikur og varð að draga sig út úr íslenska landsliðshópnum sem er á leið til Bandaríkjanna í tvo æfingaleiki.