Í samtali við Morgunblaðið sagði hann að það sé að minnsta kosti ekki að hægja á því en tók fram að fullsnemmt sé að slá nokkru föstu. Töluverð skjálftavirkni sé í kvikuganginum en flestir séu skjálftarnir litlir.
Hann sagði að hægt sé að túlka þessa þróun á ýmsa vegu. Til dæmis að hægt hafi á innflæðinu en nú sé það að aukast á nýjan leik. Einnig sé hugsanlegt að breytingar séu að verða á hegðun landrissins, það gæti hafa breitt úr sér eða sé að breiða úr sér og af þeim sökum hafi hraðinn minnkað aðeins.
Hvað varðar gos sagði hann að það ætti ekki að koma neinum á óvart þótt gos hefjist fljótlega. Miðað við innflæðið þá sé hugsanlega tæp vika í að sama rúmmál verði komið og kom upp í gosinu í desember. Hins vegar virðist landrisið vera meira en það var komið í 18. desember.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, sagðist telja að eldgos geti hafist á ný við Sundhnúkagígaröðina á næstu dögum. Þróunin sé svipuð og fyrir gosið 18. desember. Landrisið í Svartsengi sé orðið meira en þá og hvað varðar Eldvörp þá sé það að ná sömu hæð og síðast.
Hann sagði ekki útilokað að minna landris og skjálftavirkni þýði að „þetta sé að lognast út af“. Hann telur þó líklegri sviðsmynd að kvikugeymslan sé að fyllast og sé komin að þolmörkum.
„Það er búið að teygja eins mikið á þakinu og veggjunum á geymslunni og hægt er. Þetta er eins og með teygju; ef þú strekkir og strekkir þá verður alltaf erfiðara að strekkja eftir því sem þú strekkir meira þar til hún brestur. Það gæti verið fyrirboðinn á því að við séum komin að þessum þolmörkum. Ef það er rétt þá gætum við fengið gos eða einhvern atburð í gang á næstu klukkutímunum eða kannski næstu dögum,“ sagði hann.