Lionel Messi fékk ekki nógu mikla virðingu sem leikmaður Paris Saint-Germain að sögn fyrrum liðsfélaga hans, Kylian Mbappe.
Messi spilaði með PSG í tvö ár en hann gekk í raðir liðsins frá Barcelona þar sem hann gerði garðinn frægan.
Messi er markahæsti leikmaður í sögu Barcelona og var lengi talinn besti leikmaður heims.
Eftir komuna til Frakklands fór ferill hans niður á við en hann vann þó heimsmeistaramótið með Argentínu í fyrra.
Mbappe lék með Messi hjá PSG en hann telur að Argentínumaðurinn hafi átt betra skilið í frönsku höfuðborginni.
,,Messi á skilið alla þá virðingu sem er í boði, sérstaklega í Frakklandi þá fékk hann ekki þá virðingu sem hann á skilið,“ sagði Mbappe.