fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Gamlar kempur spá í spilin fyrir EM – „Fyrsta til sjötta sæti væri frábært“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 7. janúar 2024 13:30

Ísland í leik gegn Svíum í fyrra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

EM í handbolta, sem haldið er í Þýskalandi, hefst um miðja vikuna og fyrsti leikur Íslendinga er gegn Serbum næstkomandi föstudag. Eins og oft áður ríkir mikil eftirvænting fyrir mótinu hér á landi og töluverð bjartsýni ríkir um góðan árangur enda er íslenska liðið talið vera mjög vel mannað og hópurinn breiður.

Ísland er í riðli með Serbíu, Svartfjallalandi og Ungverjalandi. Tvö efstu liðin komast í milliriðil og efsta liðið tekur með sér tvö stig. Í milliriðli gætu beðið gífurlega sterk lið á borð við Frakkland, Þýskaland, Spán og Króatíu. Það er því ljóst að Ísland þarf að eiga marga toppleiki til að eiga möguleika á sæti ofarlega í keppninni.

DV hafði samband við tvær fornfrægar kempur, fyrrverandi leikmenn og þjálfara íslenska landsliðsins, þá Þorbjörn Jensson og Viggó Sigurðsson. Þorbjörn lék með landsliðinu á níunda áratugnum og var m.a. í liði sem náði sjötta sætinu á HM í Sviss árið 1986. Undir stjórn Þorbjarnar náði íslenska landsliðið fimmta sæti á HM í Japan árið 1997, en það er enn besti árangur Íslands á heimsmeistaramóti.

Þorbjörn er núna á leiðinni til Þýskalands til að styðja liðið og skemmta sér en hann fer ásamt eiginkonu sinni. Þorbjörn er bjartsýnn á gengi liðsins:

„Hópurinn er býsna góður, þetta er mjög góður mannskapur, þetta lofar bara góðu og við eigum mjög góðan sjens í fyrstu tvo leikin (Serbar og Svartfellingar) en svo er það spurning með þennan leik gegn Ungverjum, við erum stundum góðir og stundum lélegir á mót þeim. En við eigum alveg raunhæfa möguleika þar líka,“ segir Þorbjörn en riðillinn verður spilaður í München. Kaup Þorbjarnar á gistingu eru hins vegar til marks um að hann er bjartsýnn á gengi liðsins:

„Ég er nú svo bjartsýnn að ég er búinn að kaupa gistingu uppi í Köln þar sem milliriðillinn verður leikinn.“ – Þess má geta að Þorbjörn keypti ekki pakkaferð heldur hannaði sína ferð sjálfur. Hann segir að gaman sé að koma til Þýskalands og hann hefur bæði verið í München og Köln áður.

DV bar undir Þorbjörn þær fullyrðingar margra að EM sé sterkari keppni en HM, þar sem oftast megi finna slakari lið innan um heimsklassalið á HM og ekki séu því allir andstæðingarnir mjög erfiðir.

„Já, en í gegnum tíðina höfum við gert betur á EM en HM, komumst í bronssætið einu sinni. Þó að HM eigi að teljast stærri og meiri keppni þá eru þarna lið innan um sem eru ekki góð en það eru öll bestu liðin þarna líka. Ég náði 5. sæti með liðið í Japan árið 1997 og það er besti árangurinn í þeirri keppni hingað til. Hugsaðu þér, það eru næstum 30 ár síðan. En það má endalaust deila um hvort EM eða HM eru sterkari.“

Þorbjörn er mjög spenntur fyrir keppninni og sér fram á dýrðardaga í Þýskalandi með frúnni. Önnur gömul kempa, Viggó Sigurðsson, ætlar hins vegar að horfa á mótið úr sjónvarpssófanum.

Toppmannskapur og toppþjálfarar

Viggó náði sjöunda sæti sem þjálfari íslenska liðsins á EM 2006 en þá vannst meðal annars fyrsti mótssigurinn gegn Rússlandi:

„Þegar ég tók við liðinu fyrir HM í Túnis þá gerði ég margar breytingar, það var kominn tími á breytingar og endurnýjun.“ Viggó minnist þess að ekki hafi gengið vel á HM í Túnis en liðið sprakk síðan út á EM nokkru síðar. „Við lentum í ofboðslega miklum meiðslum í þessari keppni, Alexander Peterson, Ólif Stef og Einar Hólmgeirsson voru allir meira og minna frá,“ segir Viggó, en ekki síst í ljósi meislanna var árangurinn á EM 2006 mjög góður. Árið 2010 náði Ísland síðan bronsverðlaunum á EM eftir sigur á Póllandi í úrslitaleik. Þjálfari þá var Guðmundur Guðmundsson.

Viggó telur að EM sé erfiðari keppni en HM. „Mun erfiðara mót og það er enginn leikur þar sem þú getur slakað á. Vagga handboltans sé í Evrópu þó að eitt og eitt sterkt lið komi upp í Asíu og Afríku, sem er frábært.“

Viggó er bjartsýnn fyrir mótið í Þýskalandi. „Möguleikarnir eru góðir, þetta er jafnbesta lið sem við höfum farið með á stórmót, ég sé enga veikleika í liðinu, allar stöður eru tvímannaðar, en ég held að ef við ætlum að fara langt þá verðum við að fá markvörsluna í gang. Við erum með vonarstjörnu í Viktori Gísla, sem á möguleika á að verða einn besti markvörður í heimi ef vel gengur. Við erum með stráka sem spila meira og minna allir í toppliðum í Evrópu og eru vanir að spila þétt og spila hraðan handbolta. Þannig er bara handboltinn í dag, þetta er gjörbreytt,“ segir Viggó og bendir á að við séum líka með toppþjálfara í Snorra Steini Guðjónssyni og aðstoðarmanni hans, Arnóri Atlasyni: „Þetta eru frábærir þjálfarar og ég bind miklar vonir við þá. Þeir voru leikmenn í landsliðum sem ég þjálfaði og ég veit nákvæmlega hvað er í þá spunnið.“

Viggó er aðeins ósáttur við eitt, varðandi þjálfarana, það er að hafa ekki valið stórskyttuna Þorstein Leó Gunnarsson úr Aftureldingu í liðið. „Eina sem ég get fundið að er að hafa skilið Þorstein eftir. Ég er ekki alveg sáttur við það. Hann er stórskytta og okkur vantar meiri breidd í skyttustöðurnar. Hann á framtíðina fyrir sér og ég hefði viljað að hann fengi reynsluna núna.“

Aðspurður hvað teljist góður árangur á þessu móti segir Viggó: „Fyrsta til sjötta sæti væri frábært. En við verðum samt að gera okkur grein fyrir því að þetta er rosalega jöfn keppni. Svo hefur það gerst áður að Ungverjar hafi orðið okkar banabiti. Við eigum eftir að spila við þá og þá er þetta ekki búið fyrr en þetta er búið og þetta verður ofboðslega jafnt.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sigurði Árna lögreglumanni ekki gerð refsing fyrir ofbeldi gegn fanga – „Við verðum skelkaðir í aðstæðum og gerum mistök“

Sigurði Árna lögreglumanni ekki gerð refsing fyrir ofbeldi gegn fanga – „Við verðum skelkaðir í aðstæðum og gerum mistök“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar