Breska ríkissjónvarpið BBC hefur verið harkalega gagnrýnt af vísindasamfélaginu fyrir að gera lítið úr Philip Jacobs sem fann merkasta steingerving sögunnar. Í þætti David Attenborough var fjallað ítarlega um steingerving sæskrímslisins sem Jacobs fann en hann ekki nefndur á nafn.
Um er að ræða steingervða hauskúpu risaeðlu sem lifði fyrir 150 milljón árum síðan. Á fræðimáli heitir ferlíkið pliosaur. Er steingervingurinn ótrúlega vel varðveittur.
Jacobs fann steingervinginn þegar hann var á göngu á ströndinni Dorset í Bretlandi í apríl árið 2022. Snoppan stóð upp úr jörðinni en restin af hauskúpunni kom í ljós þegar byrjað var að grafa.
BBC fylgdist náið með þessari uppgötvun og sýndu heimildarmynd um hana um áramótin. Jacobs var hins vegar ekki sáttur þar sem hann var ekki einu sinni nefndur á nafn. Aðeins talað um „áhugafullan steingervingafundarmann.“
„Það er búið að afmá mig í minni eigin uppgötvun, það er ekki einu sinni minnst á mig. Ég er orðlaus,“ sagði Jacobs samkvæmt fréttastofunni Deadline.
Nú er búið að hrinda af stað undirskriftasöfnun til þess að fá eðluna nefnda eftir Jacobs. 2000 manns hafa þegar skrifað undir söfnunina.
„Það er talað um að þetta sé merkasti steingervingafundur allra tíma,“ sagði Anna Morell, sem hóf undirskriftasöfnunina. „Þetta er einstakt. Þetta er risastórt. Þetta skiptir máli. En samt er verið að afmá nafn Philip úr þessari sögu.“
Vísindasamfélagið hefur einnig gagnrýnt BBC, meðal annars steingervingafræðingurinn Dean Lomax sem sjálfur hefur stýrt sjónvarpsþáttum.
„Philip Jacobs á skilið mikla viðurkenningu, ekki aðeins fyrir að finna þennan steingerving heldur einnig fyrir að passa upp á steingervinginn fyrir vísindin.“
BBC hefur brugðist við málinu með yfirlýsingu. Segir þar að rætt hafi verið við Jacobs fyrir fundinn og að á hann hafi verið minnst í listanum sem rennur yfir skjáinn í lokin. „Þessi mynd fjallaði aðallega um uppgröftinn og vísindalega rannsókn á steingervingnum,“ segir í yfirlýsingunni.