Mark Lawrenson, fyrrum leikmaður Liverpool, er sannfærður um að liðið eigi ekki að semja við stórstjörnuna Kylian Mbappe ef hann verður fáanlegur á frjálsri sölu.
Mbappe verður samningslaus í sumar og má ræða við önnur félög en líklegast er að hann endi hjá Real Madrid.
Liverpool ku þó vera það enska félag sem er í kapphlaupinu en Mbappe er einn besti ef ekki besti framherji heims.
Ljóst er að Mbappe myndi fá risalaun í Liverpool og gæti það fengið aðra leikmenn félagsins til að biðja um launahækkun.
,,Ef Kylian Mbappe er fáanlegur á frjálsri sölu þá skrifar hann undir hjá félagi og þénar milljónir,“ sagði Lawrenson.
,,Mohamed Salah gæti beðið um meiri pening á móti alveg eins og Virgil van Dijk. Ég sé hann fyrir mér sem leikmann Real Madrid og er ekki viss um að hann muni rúlla yfir ensku úrvalsdeildina.“