Birna Guðný Björnsdóttir leikskólakennari og endurskoðandi ritar í dag aðsenda grein á Vísi. Hún fjallar þar mest megnis um baktal í íslensku samfélagi sem hún segir of mikið og segist, í því samhengi, ósammála þeirri gagnrýni sumra að síðasta Áramótaskaup RÚV hefði þurft að vera beittara í garð þjóðþekktra einstaklinga.
Sjá einnig: Flosi hringdi í vin sinn sem var orðinn frægur á Íslandi – „Það var eins og að tala við andsetinn mann“
Birna segir vanlíðan vera vanmetna en um leið vandmeðfarna:
„Við eigum til með að flokka hana sem vonda og neikvæða, eitthvað sem við viljum helst ekki horfa á eða tala um. Stundum setjum við hana líka upp sem klikkbeitu. Fyrir sögu sem segir, hey, mér leið voða illa, en nú líður mér vel. En samt ekki misskilja. Ég er ekki að gagnrýna. Slíkar sögur gefa manni mikið við að heyra, því allir eiga það skilið að láta sér líða vel.“
Hún segir að vanlíðan geti verið margskonar og flókin:
„Verst er þó að við getum haft voða takmarkaða sýn á það, hvað það er sem veldur okkur vanlíðan.“
Birna segir að vanlíðan geti verið bæði andleg og líkamleg. Vanlíðan geti leitt fólk til betra lífs ef það tekur eitt skref í einu við að takast á við hana:
„Þó það sé gott að geta fundið einhvern sem býður upp á knúsið þá er það oft ekki nóg. Það getur verið ráðlegt að fá utanaðkomandi aðstoð. Einhvern sem tekur það ekki til sín, ef þú verður pirraður og reiður þegar verið er að benda þér á hráan og kaldan sannleikann. Það að leitast eftir fegurðinni og takast á við sjálfan sig getur verið bæði erfitt og sárt.“
Birna gerir að umtalsefni það sem hún kallar samfélagslega vanlíðan sem snúist einkum um slæma upplifun af samskiptum. Hennar áskorun hafi verið að kryfja hvað felist í ljótu umtali sem sé hluti af samfélagslegri vanlíðan:
„Kannski að sumir geri sér grein fyrir því ofbeldi sem menn beita sjálfan sig með því að stuðla að slíku tali. Að tala illa um aðra er eins konar skyndilausn í því að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra. Að benda á aðra til að reyna sannfæra sjálfan sig um að maður sé maður á meðal manna, betri en aðrir. Við manni blasir brotin sjálfsímynd sem finnur ekki nægilegt virði í sjálfum sér.“
„Þegar maður grípur til þess ráðs að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra, sama í hvaða birtingarmynd það er, þá er maður í leiðinni að brjóta niður hina mikilvægu sjálfsímynd. Og gleymir í leiðinni að sýna sjálfum sér virðingu, umhyggju og hina verðmætu sjálfsást.“
Birna segir að mikið hafi verið rætt um líkamlegt ofbeldi, í íslensku samfélagi, á undanförnum misserum og að rétt sé byrjað að leiða hugann að andlegu ofbeldi en allt of fáir velti samfélagslegu ofbeldi fyrir sér:
„Við eigum það til að samþykkja að viss hegðun viðgangist. Því það getur verið svo erfitt að hugsa um hana og takast á við ofbeldið. Bæði innan lítilla samfélaga, meðal fjölskyldu, kunningja og vina, innan vinnustaða og almennt í þjóðfélaginu. Illt umtal bitnar ekki aðeins á umfjöllunarefninu, ofbeldismanninum sjálfum og hlustandanum. Illt umtal er samfélagslegt ofbeldi, þar sem saklausar sálir geta liðið fyrir andrúmsloft, sem það átti engan þátt í að skapa.“
Birna fjallar því næst ítarlega um hvernig hún hefur tekist á við eigin samfélagslegu vanlíðan og forðast að taka þátt í illu umtali en það hafi oft verið erfitt að eiga við þátttakendur í slíku athæfi sem sjái iðulega ekki hvað sé athugavert við hegðun þeirra.
Að lokum setur Birna umfjöllunarefni sitt í samhengi við nýafstaðið Áramótaskaup og segir að línan milli beittrar samfélagsgagnrýni og þess að gera lítið úr fólki sé þunn:
„Það er vandmeðfarið að setja saman atriði með beittri samfélagsgagnrýni, gera það á fyndinn máta, og umfram allt gera það án þess að gera lítið úr fólki, hægri vinstri. Ég man ekki eftir skaupi sem hefur gert það svona vel.“
„Og við fólkið sem kallar eftir beittara skaupi í garð þjóðþekktra einstaklinga, æi, vitið þið hvað. Mér finnst það ljótt, að fara fram á að heil þjóð sé sett í stellingar að upplifa óróa vegna meinfýsni annarra. Þjóðin má alveg fá frí frá því, á þessu allra heilagasta kveldi þjóðarinnar.“
Grein Birnu í heild sinni er hægt að lesa hér.