Þau lögðu 4.000 dollara, sem svara til um 550.000 íslenskra króna, á eldhúsborðið. Þá kom sjö ára hundur þeirra, Cecil, að borðinu og át seðlana og tætti í sundur.
Hjónin, Clayton og Carrie Law, höfðu tekið peningana út úr hraðbanka til að greiða garðyrkjumönnum fyrir veitta þjónustu.
Það var Clayton sem kom að Cecil við að tæta peningana í sig og hrópaði þá til eiginkonu sinnar: „Cecil át 4.000 dollara,“ sagði Carrie í samtali við Pittsburgh City Paper og bætti við: „Ég hélt að ég myndi fá hjartaáfall.“
Hjónin byrjuðu strax að ljósmynda hina erfiðu baráttu þetta við að reyna að bjarga eins miklu af peningunum og hægt var. Þetta gerðu þau með því að líma saman seðla sem Cecil hafði tætt í sundur og þá sem skiluðu sér í gegnum meltingarveg hans.
Í Instagramfærslu um miðjan desember sagði Carrie að þeim hefði tekist að líma saman 3.550 dollara fram að því. Í samtali við Pittsburgh City Paper sagði hún að það hafi verið skítavinna að þvo seðlana sem fóru í gegnum meltingarveg Cecil.
Það var léttir fyrir hjónin að banki þeirra sagðist taka við seðlunum, svo framarlega sem raðnúmer þeirra væru læsileg.
„Ég átti aldrei von á að segja að ég hefði þvegið peninga en það er greinilega fyrsta sinn fyrir allt,“ sagði Carrie í samtali við The Washington Post.