Nýtt kílómetragjald fyrir notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla tók gildi um áramótin og geta eigendur slíkra ökutækja nú skráð kílómetrastöðu á Mínum síðum Ísland.is og í Ísland.is snjallforritinu.
Opnað var fyrir skráningu 18. desember síðastliðinn og 4. janúar hafa yfir 11.000 eigendur skráð kílómetrastöðu ökutækja sinna, eða um 20% þeirra sem eiga bíla sem falla undir gjaldið.
Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kemur fram að endurgjöf notenda á skráningarferlinu hafi verið jákvæð og uppbyggileg, og þegar skilað sér í endurbótum á því.
Fyrsta skráning á kílómetrastöðu eftir upphaf gjaldtöku skal eiga sér stað fyrir 20. janúar 2024. Fyrsti gjalddagi greiðslna vegna gjaldtímabilsins janúar 2024 verður 1. febrúar 2024 og eindagi 14 dögum síðar.
Kílómetragjaldið byggist á fjölda ekinna kílómetra og því munu þeir borga sem nota vegakerfið. Gjaldið verður 6 kr/km fyrir rafmagns- og vetnisbíla en 2 kr/km fyrir tengiltvinnbíla.
Nálgast má frekari upplýsingar á vegirokkarallra.is
„Stjórnvöld munu halda áfram að styðja við kaup á rafmagns- og vetnisbílum þó að form stuðningsins hafi breyst um áramótin. Veittur verður beinn stuðningur við kaup á slíkum bílum í stað ívilnunar í virðisaukaskatti. Orkusjóður mun annast afgreiðslu styrkjanna. Umsækjendur sækja um með stafrænum hætti á Mínum síðum á Ísland.is. Allar nánari upplýsingar um styrkafgreiðslu er að finna á vef Orkusjóðs og á Ísland.is. Því verður áfram verulegur ávinningur af orkuskiptum fyrir bíleigendur,“ segir í tilkynningunni.