Faðir barnanna heitir Stephan Hensel en móðir þeirra er Christina Block. Christina er þekktur þýskur veitingahúsaerfingi og hlaupa auðæfi fjölskyldu hennar á tugi milljarða króna.
Gråsten er rúmlega fjögur þúsund manna bær á Jótlandi, skammt frá landamærum Þýskalands. Voru börnin að horfa á flugeldana fyrir utan veitingastað á gamlárskvöld þegar menn á tveimur bílum, Mercedes Benz og Citroën, komu aðvífandi og slógu Stephan í götuna og neyddu börnin inn í bílana.
Bílarnir voru á þýskum númerum en ekki liggur fyrir hvort bílunum hafi verið ekið yfir landamærin í kjölfarið. Ekkert hefur spurst til barnanna síðan á gamlárskvöld og rannsaka bæði dönsk og þýsk löggæsluyfirvöld málið.
Í frétt People kemur fram að Stephan og Christian hafi skilið árið 2018 og átt í forræðisdeilu um börnin síðan þá. Skoðar lögregla hvort ránið á gamlárskvöld tengist umræddri forræðisdeilu.
Christina, sem er 49 ára, er dóttir veitingahúsaeigandans Eugen Block sem stofnaði steikhúsakeðjuna Block House í Hamburg árið 1968. Eru auðæfi fjölskyldunnar metin á 45 milljarða króna.