Ríkislögreglustjóra er skylt að veita manni aðgang að afriti símtals til fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Þetta kemur fram í úrskurði úrskurðarnefndar upplýsingamála.
Málið má rekja til þess að um sumarið 2022 barst Neyðarlínu símtal þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu. Var símtalið sent áfram til fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Tilkynnandi sagðist staddur í jarðarför og þangað væri maður óvelkominn mættur og neitaði að fara.
Lögreglan mætti á svæðið og ræddi við manninn, kæranda í málinu til úrskurðarnefndar, og aðra hlutaðeigandi. Úr þessu varð að kærandi var ekki viðstaddur athöfnina.
Ekki sætti kærandi sig við þetta þegjandi og hljóðalaust. Hann hafði samband við ríkislögreglustjóra og óskaði eftir afriti af símtalinu þar sem lögreglu var sigað á hann, sem og skýrslu lögregluþjóna sem mættu á vettvang. Fékk hann þau svör að engin eiginleg skýrsla hafi verið unnin eftir atvikið heldur aðeins gerð stutt bókun um verkefnið. Væru upptökur til staðar þá mætti ekki afhenda þær til kæranda, enda væru slíkar upptökur ekki afhentar málsaðilum.
Kærandi gekk þó áfram eftir þessi upplýsingum og um mánuði síðar fékk hann útprentun af dagbókarfærslu lögreglu í málinu þar sem búið var að fella út persónugreinanlegar upplýsingar um aðra einstaklinga en kæranda sjálfan.
Enn óskaði kærandi eftir nákvæmu afriti eða upptöku af téðu símtali og fékk hann þá loks synjun, enda hefði sá sem hringdi til lögreglu lagst á móti afhendingu.
Kærandi leitaði því til úrskurðarnefndar þar sem hann taldi sig hafa skilyrðislausan rétt til slíks, enda hafi lögregla með inngripi sínu haf afskipti af lífi hans með afgerandi hætti. Eins þyrfti kærandi símtalið til að meta hvers vegna lögregla hafi orðið við erindi tilkynnanda og mætt eins hratt á svæðið og raun varð, allt til að koma í veg fyrir þátttöku kæranda í athöfn jarðarfararinnar. Kærandi tók fram að hann viti vel hver það var sem tilkynnti, svo ekki þurfi lögregla að gæta að persónuvernd þess.
Ríkislögreglustjóri sagði í svörum sínum til úrskurðarnefndar að einkahagsmunir tilkynnanda vegi þyngra hvað upplýsingabeiðni varðar, heldur en hagsmunir kæranda. Þar með væri ekki hægt að verða við beiðninni. Hagsmunir bæði tilkynnanda sem og hinnar látnu vegi þyngra en hagsmunir kæranda af að hlusta og fá afrit af símtalinu.
Úrskurðarnefndin rakti að samkvæmt upplýsingalögum er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Þessi skylda nái einnig til tilvika þar sem upplýsingar varða aðila sjálfan með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnum.
Hafði úrskurðarnefnd hlustað á téð símtal og taldi ljóst að það varðaði kæranda sjálfan, enda tilefni símtalsins að óska eftir aðstoð lögreglu vegna hans og er kærandi sérstaklega nafngreindur í símtalinu.
Þó reyni hér á mat á hagsmunum kæranda annars vegar og tilkynnanda hins vegar. Við slíkt mat væri þó ekki nóg að leita afstöðu tilkynnanda og synja um aðgang aðeins byggt á neikvæðri afstöðu. Símtalið tengdist vilja kæranda til þátttöku í kveðjuathöfn vegna einstaklings sem hann tengdist fjölskylduböndum annars vegar, og hins vegar varð símtalið kveikjan að því að lögregla steig inn í aðstæður. Kærandi hefði vissulega hagsmuni af því að fá aðgang að símtalinu til að átta sig á tildrögum og ástæðum afskiptanna, og auk þess viti hann hver það var sem hringdi. Þar með vega hagsmunir kæranda þyngra en þess sem hringdi.
Kærandi fær því aðgang að afriti símtalsins.