Kristinn Eiðsson, fyrrverandi strætisvagnastjóri, hefur verið fundinn sekur um manndráp af gáleysi, fyrir að hafa ekið yfir gangandi vegfaranda. Dómur um þetta var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 14. desember síðastliðinn.
Að morgni fimmtudagsins 25. nóvember árið 2021 ók Kristinn strætisvagni suðvestur Skeiðarvog í Reykjavík og beygði til hægri norðvestur Gnoðarvog. Samkvæmt ákæru sýndi hann ekki nægjanlega aðstæðslu og varúð og virti ekki forgang gangandi vegfaranda þannig að bíllinn hafnaði á konu á sjötugsaldri sem gekk yfir á grænu ljósi. Konan féll við og lenti undir hægra framhjóli og hægri hlið bílsins með þeim afleiðingum að hún hlaut fjöláverka og lést nær samstundis.
Kristinn neitaði sök, á þeim forsendum að slysið yrði ekki rakið til gáleysis hans en hann sagðist ekki hafa séð konuna í aðdraganda slyssins. Dómurinn áleit hann sekan en í niðurstöðunni segir meðal annars:
„…liggur fyrir upptaka úr myndbandsupptökuvél sem var fyrir ofan vagnstjóra og sneri að framhurð strætisvagnsins. Má þar sjá að margt fólk stóð hægra megin við vagninn þegar ákærði ók honum af stað í umrætt sinn frá biðstöðinni við Skeiðarvog. Má síðan sjá hvar hin látna gengur af stað yfir Gnoðarvog, á gangbraut og gegn grænu ljósi, í sömu mund og strætisvagninum er beygt úr Skeiðarvogi til hægri norðvestur Gnoðarvog. Sést síðan að ákærði ekur vagninum óhikað inn í beygjuna og á A. Má á upptökunni sjá að hún lyftir höndum og reynir án árangurs að koma sér undan vagninum sem er ekið á hana. Fellur hún við það á götuna og hverfur síðan úr mynd undir vagninn.“
Kristinn var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og sviptingu ökuleyfis í sex mánuði. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða tveimur aðstandendum konunnar hvorum um sig tvær milljónir króna í miskabætur, eða samtals fjórar milljónir.
Kristinn steig fram í viðtali við Vísir.is í desember árið 2022. „Það er erfitt að lýsa upplifun minni af þessu slysi þó segja megi að hún sé í raun ónot og sorg sem aldrei mun úr huga mínum fara. Ég mun þurfa að læra að lifa með þessum atburði svo lengi sem ég lífi,“ sagði hann þar.
Hann segist jafnframt hafa brotnað saman í lögregluyfirheyrslu rétt eftir slysið:
„Þetta var allt saman svo óraunverulegt. Að hafa lent í þessu og þurfa að stramma mig af á meðan yfirheyrslan stóð yfir. Um leið og það var búið að slökkva á upptökunni brotnaði ég algjörlega saman. Þeir spurðu hvort ég vildi tala við lögfræðing og ég sagði þeim að ég hefði ekki efni á slíkum. Það að ég hélt að þetta væri barn braut mig algerlega niður því að verða barni að bana er líklega það hryllilegasta sem nokkur getur lent í. Svo sagði rannsóknarlögreglan mér að þetta hafi verið kona á sjötugs aldri sem var ef svo má segja verið léttari fregn en að þetta hafi verið barn.“
Í viðtalinu kemur einnig fram að eiginkona Kristins lést af veikindum nokkrum mánuðum eftir slysið. Er því ljóst að hann hefur gengið í gegnum afar erfiða tíma síðustu tvö til þrjú árin.
Dóminn má lesa hér.