Facundo Pellistri, leikmaður Manchester United, er orðaður við Nice. Sir Jim Ratcliffe er eigandi franska félagsins og gæti United nýtt sér þau tengsl.
Blaðamaðurinn David Ornstein á The Athletic segir frá þessu. Það var staðfest á dögunum að samningar hefðu náðst á milli Ratcliffe og eigenda United um að hann myndi eignast 25% hlut í félaginu.
United vill styrkja lið sitt í janúar eftir erfitt gengi en það er lítið svigrúm til þess vegna Financial Fair Play reglna.
Pellistri er sem fyrr segir orðaður við Nice en líklegt er að hann færi á láni. Myndi það losa aðeins um launakostnað.
Pellistri er 22 ára gamall landsliðsmaður Úrúgvæ. Hann kom til United árið 2020 en hefur ekki tekist að festa sig í sessi.
United hefur þegar lánað Donny van de Beek til Frankfurt og þá er Jadon Sancho talinn á leið til Dortmund, sömuleiðis á láni. Loks er Sergio Reguilon snúinn aftur til Tottenham. Hann var á láni hjá United.