Konan, Kimberlee Singler, hringdi í lögreglu þann 19. desember síðastliðinn og tilkynnti að þjófar hefðu brotist inn á heimili hennar í Colorado í Bandaríkjunum.
Lögreglumenn sem komu á vettvang fundu sjö ára son hennar, Aden Wentz, og níu ára dóttur hennar, Ellie Wentz, látin í húsinu. Kimberlee og ellefu ára dóttir hennar voru flutt á sjúkrahús með áverka en ekki liggur fyrir hverjir þeir voru, samkvæmt frétt Colorado Springs Gazette.
Lögreglu grunaði fljótlega að lýsing Kimberlee á því sem átti að hafa gerst kom ekki heim og saman við aðstæður á vettvangi. Virtist allt benda til þess að Kimberlee hefði sjálf orðið börnum sínum að bana áður en hún veitti sjálfri sér og elstu dóttur sinni áverka.
Þegar lögregla reyndi að hafa upp á Kimberlee var búið að útskrifa hana af sjúkrahúsi og hún búin að koma sér með flugi til Lundúna. Hún var svo handtekin af bresku lögreglunni á hóteli á Kensington-svæðinu síðastliðinn laugardag og færð í varðhald.
Við rannsókn málsins kom í ljós að Kimberlee hafði átt í harðri forræðisdeilu við barnsföður sinn, Kevin Wentz, og átti hún að láta börnin af hendi til hans þann 16. desember. Hún fékk svo veður af því þann 19. desember – sama dag og hið meinta innbrot var framið – að lögregla hefði fengið það verkefni að hafa upp á börnunum.
Bandarísk löggæsluyfirvöld hafa farið fram á hún verði framseld til Bandaríkjanna en Kimberlee berst nú gegn því fyrir breskum dómstólum. Málið verður næst tekið fyrir þann 29. janúar næstkomandi.