Á leið frá Flórída til Norður-Karólínu hvarf hluti af farangri Catherine Gavino og fjölskyldu hennar á dularfullan hátt. Fox News skýrir frá þessu og segir að þegar fjölskyldan var lent á Charlotte Douglas alþjóðaflugvellinum hafi komið í ljós að það vantaði eina af ferðatöskum hennar. En fjölskyldan ætlaði ekki að láta þetta eyðileggja jólafögnuðinn.
Catherine hafði verið svo forsjál að koma GPS-sendi fyrir í töskunni og hún var fljót að sjá að töskunni hafði verið stolið því hún var á ferð í vesturátt eftir hraðbraut einni. Catherine ætlaði ekki að sitja aðgerðarlaus og greip því til sinna aðgerða.
Í samtali við Queen City News sjónvarpsstöðina sagði hún að hún hafi ekki viljað sitja undir þessu og því hafi hún tekið málið í eigin hendur.
Fjölskyldan tók farangurinn sinn, leigði bíl og lagði af stað í sömu átt og stolna taskan var á leið í. Þeim tókst að finna hverfið þar sem taskan var en fundu þó ekki heimilisfangið þar sem hún var. Af þeim sökum varð hún að gefa töskuna upp á bátinn, að sinni.
Á jóladag skoðaði Catherine staðsetningu töskunnar á ný og fékk þá upp nákvæmt heimilisfang í bænum Gastonia. Með aðstoð lögreglunnar fann hún töskuna en þá var búið að tæma hana. Lögreglan handtók þjófinn sem er grunaður um fleiri þjófnaði.