fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Lifir enn í gömlum glæðum Ferguson og Andrésar prins? – Umdeilda hertogaynjan tjáir sig í fyrsta sinn eftir að orðrómurinn fór að stað um jólin

Fókus
Þriðjudaginn 2. janúar 2024 15:30

Úr brúðkaupi Andrésar og Ferguson/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sarah Ferguson, móðir prinsessanna Eugenie og Beatrice, er löngu orðin vön því að vera milli tannanna á Bretum, allt frá því að hún gekk að eiga umdeilda prinsinn Andrés, og svo skilnaður þeirra í framhaldið.

Það kom mörgum á óvart þegar Ferguson ákvað að styðja við sinn fyrrverandi í kjölfar þess að hann var sakaður um að vera kynferðisbrotamaður, en nú gengur orðrómur um að Ferguson og Andrés stefni aftur í hnapphelduna, eða að þau hafi nú þegar riðið á vaðið.

Lífið rétt að byrja

Margir hafa beðið eftir að Ferguson hreki orðróminn eða staðfesti og því eru allar færslur hennar á Instagram lúslesnar í leit að vísbendingum. Í tilefni áramótanna skrifaði Ferguson á Instagram:

„Ég vona að allir séu að njóta hátíðanna. Árið 2023 hefur gengið undan og ofan með tilheyrandi áskorunum, lexíum, hlátri, kraftaverkum og gleði. Ég komst á metsölulista Sunday Times fyrir sögulegu ástarsöguna mína, A Most Intriguing Lady. Ég greindist með brjóstakrabbamein. Ég sigraði brjóstakrabbamein og nú er ég með Derek á vinstri. Ég eignaðist nýtt barnabarn. Ég naut þeirra forréttinda að hitta ótrúlegasta fólk sem kemur úr ýmsum áttum með stórkostlegar sögur að segja. Ég hef uppgötvað með sjálfri mér að ég hef líka sögur að segja. Ég er 64 ára og er bara rétt að byrja. Ég vona að allir nýti þennan tíma til íhugunar og horfi fram á veginn með kærleika og jákvæðni að vopni. Gleðilegt nýtt ár.“

Orðróminn má rekja til þess að Andrés og Ferguson mættu saman til að fagna jólunum með konungsfjölskyldunni, en það höfðu þau ekki gert saman í rúm 30 ár.

The Telegraph ákvað að hreinlega spyrja hertogaynjuna út í meint hjónaband, en Ferguson svaraði því til að hún og Andrés væru lukkuleg með hlutina eins og þau eru, en prinsinn hefur búið með sinni fyrrverandi undanfarin misseri.

„Við segjum gjarnan að við séum ekki þessi hefðbundnu fráskilin hjón. Við erum skilin, en ekki aðskilin. Við sinnum foreldrahlutverkinu saman og styðjum hvort annað og trúum því að fjölskyldan sé það eina sem skiptir máli. Ég er stolt af þeirri vinnu sem við höfum staðið saman að hvað varðar uppeldi barna okkar og að viðhalda fjölskyldueiningunni. Okkar kjörorð eru samskipti, málamiðlanir og samkennd.“

Erfitt að giftast inn í bresku konungsfjölskylduna

Ferguson og Andrés giftu sig árið 1986 en voru skilin 1996. Þau búa samt saman í Windsor sem hefur valdið því að sameiginlegir vinir þeirra eru sannfærðir um að ástin kvikni á endanum aftur með tilheyrandi kirkjuklukknahljóm.

Eftir skilnaðinn féll Ferguson í ónáð hjá konungsfjölskyldunni og mun drottningarmaðurinn Filippus hafa hreinlega meinað henni að mæta á fjölskylduviðburði. Ferguson hefur opnað sig um að lífið í höllinni hafi verið erfitt. Andrés hafi verið verulega upptekinn sökum skuldbindingar sinnar við herinn og varla verið heima nema í mánuð ár hvert á fyrstu fimm árum hjónabandsins. Fjölmiðlar hafi eins lagt Ferguson í gróft einelti. Hún var gagnrýnd fyrir að ferðast án dóttur sinnar þegar hún hafði fætt frumburðinn, og eftir að næsta dóttir kom í heiminn var Ferguson höfð að háð og spotti fyrir að hafa bætt á sig.

Ekki bætti það stöðuna þegar Andrés og Ferguson höfðu skilið að borði og sæng, þegar myndir voru teknar af henni úr launsátri þar sem karlmaður sást sjúga á henni tærnar, en athæfið þótti ekki konunglegt. Frænka Andrésar, Margrét prinsessa, mun hafa sent Ferguson blómvönd með skilaboðunum:

„Þú hefur gert meira til að færa skömm yfir fjölskylduna, en nokkur hefði getað ímyndað sér.“

Til að bæta gráu ofan á svart þá heldu hneykslin áfram að koma upp á sjónarsviðið. Það stærsta líklega þegar í ljós kom að árið 2011 hafði umdeildi kynferðisbrotamaðurinn Jeffrey Epstein hjálpað Ferguson að komast hjá gjaldþroti með því að gera upp skuldir hennar.

Árið 2012 var gefin út handtökuskipun á hendur Ferguson í Tyrklandi, en þar var hún sökuð um að hafa villt á sér heimildir þegar hún kom til landsins árið 2008 til að afhjúpa meint misferli á ríkisreknu munaðarleysingjahæli. Þetta hafi hún gert með því að ljúga því til um tilgang ferðar sinnar og með því að hafa í kjölfarið brotið gegn friðhelgi einkalífs barnanna á heimilinu til að svarta orðspor tyrklenskra stjórnvalda.

Bretland neitaði þó að framselja Ferguson þar sem að meint brot hennar væri ekki refsiverð samkvæmt breskum lögum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Mun Karl Bretakonungur stíga til hliðar um jólin?

Mun Karl Bretakonungur stíga til hliðar um jólin?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þekkirðu fólkið? – Mexíkósk kona leitar upplýsinga um fólkið sem faðir hennar umgekkst sem skiptinemi á Íslandi fyrir hálfri öld

Þekkirðu fólkið? – Mexíkósk kona leitar upplýsinga um fólkið sem faðir hennar umgekkst sem skiptinemi á Íslandi fyrir hálfri öld
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gefur Bríet falleinkunn fyrir tónleika – „Stundum var líkt og söngkonan syngi í gegnum nefið“

Gefur Bríet falleinkunn fyrir tónleika – „Stundum var líkt og söngkonan syngi í gegnum nefið“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?